28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (3093)

84. mál, vextir

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg verð að segja það, að röksemdir háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) gátu ekki sannfært mig. — Skildist mjer, sem það mundi vera mergur málsins hjá honum, að nauðsyn bæri til að breyta þessu, svo að okurkörlum yrði ljettara en þeim áður var að nota sjer neyð annara. En þetta sýndist nefndinni ekki svo ýkjaeftirsóknarvert. Hún telur það þvert á móti mikið ólán, að vextir skuli fara sífelt hækkandi, sjerstaklega fasteignalánsvextir.

Þó að vextir í lausaviðskiftum sjeu nú háir, þá er engan veginn sennilegt, að svo verði framvegis, því vonandi er, að þetta ástand, sem nú er, verði eigi varanlegt; en hitt sýnist einkennilegt og ærið athugavert, að löggjöfin styðji að því, að vandræðaástand þetta haldist.

En þótt nefndin hafi eigi fylgt frv. út í æsar, þá hefir hún þó að nokkru leyti aðhylst það. En það sýndist henni athugavert að stuðla að því með löggjöfinni, að menn gengju að hvaða vaxtakjörum sem væru, aðeins ef lán væru fáanleg út á 2. og 3. veðrjett. Væri það til engrar bjargar, heldur sannkallaður gálgafrestur. (Gunn. S.: Vextirnir miðast við bankavexti aðeins, svo að kjörin gætu ekki kallast slæm).

Já, satt að vísu, en hv. þm. (Gunn. S.) verður að standa við það, sem hann hefir áður sagt, að farið væri alment í kringum lögin, og þá mundi það verða gert alt að einu, þó að vextirnir yrðu hækkaðir um 1%, og fæ jeg því eigi betur sjeð en þessi viðleitni hv. þm. (Gunn. S.) miði einmitt að því að auka á þessa spillingu, sem hann segir, að nú eigi sjer stað. Ástæður háttv. flm. (Gunn. S.) eru því, hvað þessu við víkur, ljettvægar fundnar, og held jeg fast fram, að síðari brtt. nái fram að ganga; hina fyrri geri jeg að engu kappsmáli. Vænti jeg þess, að hv. deild fari að till. nefndarinnar í þessu efni.