28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

84. mál, vextir

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) vill semja um vopnahlje, og skal jeg ekki hafa á móti því, þótt raunar hafi til lítillar orustu komið enn.

Er það sennileg tilgáta hjá honum, að við munum eigi verða á eitt mál sáttir, því jeg kendi þeirrar undiröldu í þessu máli, sem jeg hefi oft orðið var áður, að kjarni málsins hjá þessum hv. þm. (Gunn. S.) er, að eina ráðið sje að taka ætið lán á lán ofan, og er frv. þetta í góðu samræmi við þá kenningu.

Hygg jeg, að þó þessi hv. þm. (Gunn. S.) safni í sarpinn röksemdum sínum þangað til við 3. umr. málsins, muni það honum að litlu haldi koma; að minsta kosti bregður þá út af venjunni, ef þessi hv. þm. (Gunn. S.) verður mjög sannfærandi.