28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (3096)

84. mál, vextir

Gunnar Sigurðsson:

Aðeins örstutt athugasemd, sökum þess, að persónulega var að mjer ráðist. — Háttv. frsm. (M. K.) sagði, að jeg klifaði á því sí og æ að taka lán. Þetta er rjett að því leyti, að jeg taldi það eina ráðið til þess að losna úr fjárkreppunni, og taldi, að það hefði átt að gerast fyrir löngu. Í þingbyrjun töldu margir, þar á meðal hv. þm. Ak. (M. K.) í broddi fylkingar, að slíkt væri firra hin mesta. Við vorum kallaðir lánspostular, óalandi og óferjandi. Nú mun vera svo komið, að þessir sömu hafa kúvent í þessu máli. Og er það ánægjulegt, að jeg meðal annara hefi sannfært þessa „lánleysingja“, meðal annars hv. þm. Ak. (M. K.), þótt vel megi vera, að hann sje ekki kominn hjer til að sannfærast.