16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3100)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg býst ekki við, að það yrði mjög vinsælt að halda langa tölu núna, því að jeg býst við, að menn biði með eftirvæntingu eftir öðru, sem seinna er á dagskránni, og skal jeg því ekki þreyta hv. deild lengi, en reyna að vera stuttorður.

Í greinargerðinni eru helstu ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið, og vona jeg, að þær sjeu nægilegar til þess að greiða því götu, og hv. þdm. tækju því með sanngirni og legðust ekki á móti frv. Og í stað inngangsræðu vildi jeg aðeins fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum, og fela það hinni hv. deild.

Eins og sjá má af frv. er tilgangurinn sá, að sá fámenni hópur presta, sem varð útundan á þinginu 1919, fái nú hlutdeild í sanngirni þeirri, sem Alþingi sýndi embættismönnum landsins. Þá voru prestalaunin ákveðin sem annara embættismanna, og áttu þau að fara eftir sömu reglum. Ef þá var ástæða til, vegna ástandsins, að bæta launakjör presta, þá var líka ekki síður ástæða til að bæta launakjör uppgjafapresta, sem eiga að búa við lág launakjör. Það er ekki aðeins, að þeirra eftirlaun sjeu lægri, heldur fá þeir ekki að taka laun sín eftir sömu reglum og aðrir.

Það er ekki farið fram á, að þeir fái jafnhá eftirlaun og aðrir embættismenn, heldur, að eftirlaun þeirra sjeu reiknuð eftir sömu reglum, svo að þeir þurfi ekki að gjalda annars en þess, að þeir hafa lægri laun. Það, sem farið er fram á í frv., er aðeins það, að þessir fáu prestar, sem búið hafa við lág laun, fái hlutfallslega eins mikið af sínum lágu launum í eftirlaun, eins og aðrir embættismenn fá af sínum háu launum. Mjer finst ekki vera farið geyst í þessum kröfum.

Eins og greinargerðin sýnir, þá fá embættismenn samkvæmt lögum nr. 4, 4. mars 1909 í eftirlaun 1/5 þeirrar embættislaunaupphæðar, er hann hafði, þegar hann ljet af embætti, og 20 kr. auk þess fyrir hvert embættisár, alt að 35 árum. En með lögum frá 16. nóv. 1907 eru eftirlaun presta ákveðin 15 kr. fyrir hvert embættisár og annað ekki. Nemur það fjarska litlum parti af embættislaununum, sem þeir fá greiddan hvert ár.

Þó eru aðrir lakar settir, þeir, sem taka laun sín eftir launalögunum frá 1880. Þeir fá aðeins 10 kr. fyrir hvert embættisár.

Stjórnin sá sjer ekki fært að flytja frv., þó biskup mælti með með því, og það væri vel undirbúið. Jeg get skilið nokkurn veginn, hvernig í því liggur, þegar jeg lít á fjárlagafrv. Stjórnin klippir þar af öllu, sem nokkur skæri fá á unnið.

Það er nú vitanlegt, að þegar fjárlagafrv. er svo úr garði gert, þá verða brtt. því fleiri, er til þingsins kasta kemur, svo það er bita munur en ekki fjár, hvað stjórnin flytur, hvort heldur er á fjárlögum eða í sjerstökum frv. og hvað einstakir þm. verða að flytja. Jeg býst við, að ýmislegt slíkt rísi upp hjer á þinginu, og vonast því til, að það hneyksli engan, þó að þetta risi upp hjer meðal annars, sem hefir orðið útundan. Og þó hæstv. forsrh. (J. M.) sæi sjer ekki fært að taka upp þetta frv., þá vænti jeg þess, að hann verði því ekki andvígur.

Jeg býst við, ef að verða umr. um frv. á einhverju öðru stigi málsins, að þá verði má ske minst á fjárhagsörðugleikana nú. Jeg skal fúslega játa, að þeir eru miklir, og það er ekki ljóst, hvar á að taka miljónir, ef því væri að skifta. En vegna þess, að manni verður á að nefna miljónir í þessu sambandi, þá sjer maður einnig hversu fráleitt það er að halda, að hægt sje að bjargast úr kreppunni með því að sníða nokkra aura þar og nokkra aura hjer af þeim, er hafa slitið sjer út í þjónustu landsins. Það má auðvitað segja, að margt smátt geri eitt stórt. En það er ekki annað en orðagjálfur. Þegar upphæðirnar eru svona smáar, þá gerir hið smáa aldrei annað en smátt, og mætti því snúa því við og segja: Hið marga smáa gerir eitt smátt. Í þessu sambandi má benda á það, að nú er farið að reikna í stórum upphæðum á landinu, en stóru upphæðirnar standa og falla með stóru málunum, viðhaldi atvinnuveganna, heilbrigðismálum og viðskiftalífi, en ekki með neinum smávægilegum málum. Ef fella á frv. vegna fjárhagsörðugleikanna, þá er það tilraun til að breiða þjóðarheillablæju yfir það, að þingið vill neita þessum fámenna hóp um sanngirniskröfur þeirra.

Jeg lofaði að vekja ekki langar umr., og vona að hv. deild sýni frv. ekki þann fjandskap að lofa því ekki að fara til 2. umr. og láta athuga það í nefnd. Það er ekki sá háskagripur, að þingið eigi ekki ávalt fult vald yfir því, jafnvel þótt því sje hleypt af stokkunum. Vildi jeg svo óska, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.