07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3109)

90. mál, ellistyrkur presta og eftirlaun

Magnús Jónson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. fjárhagsnefnd fyrir, hvað hún hefir greitt vel fyrir frv. þessu, sem jeg var flm. að.

Jeg get ekki með nokkru móti komið skilning á, að frv. þetta fari í bága við stefnu þá, sem nú er uppi, um afnám eftirlauna, því hjer er eigi verið að veita neinni stjett eftirlaun, sem ekki í hafði þau áður. Er hjer aðeins verið að bæta úr ósamræmi, sem þingið 1919 gerði sig sekt í, því á þessu þingi var það samþ. með launalögunum, að prestar skyldu að öllu vera undir sömu kjörum, sem aðrir embættismenn, hvað laun og eftirlaun snerti. Er þetta því í fullu samræmi við þingið 1919, því að hjer er eigi um nein hlunnindi til handa prestum að ræða, heldur aðeins að þeir fái jafnháa hndr.tölu af sínum lágu launum sem aðrir embættismenn. Get jeg vegna þess ekki fallist á skoðun hæstv.fjrh. (M.G.). Viðvíkjandi þeirri grýlu hæstv. fjrh., að allir prestar, seni nú eru í embættum, komist á eftirlaun, er því til að svara, að tæplega má gera ráð fyrir, að meira en hluti þeirra komist nokkru sinni á eftirlaun. Komast sennilega færri prestar á eftirlaun nú en áður, sökum bættra launa. Er ekki svo að skilja, að jeg gefi í skyn með þessu, að prestar hafi farið fyr á eftirlaun en þeir þurftu, heilsunnar vegna. En líkindi eru til þess, að þeir endist betur, ef þeir geta notið betra lífs og betri aðhlynningar, sökum bættra launakjara því var haldið fram hjer við 1. umr., að þessa væri ekki þörf, vegna þess, að margir uppgjafaprestar væru í lífvænlegum stöðum. En þetta er á engan hátt frambærileg ástæða, og hefir ekki heyrst, ef um aðra embættismenn hefir verið að ræða.

Er hjer ekki um nein forrjettindi handa prestum að ræða, og vel má vera, að þeir sjeu færir um að stunda hjer einhver „kontor“-störf, þó alls ófærir sjeu að standa í vosmiklum ferðalögum. Sjá það og allir sanngjarnir menn, að á einhverju verða þeir að lifa, því að eftirlaun þeirra hrökkva skamt.

Hin ástæðan, að margir þeirra sjeu stórefnaðir menn, er heldur tæpast svara verð, því samkvæmt henni ætti að mega svifta alla menn launum sínum, ef þeir væru sæmilega efnaðir.

Sýnist mjer, að mótbárurnar hnigi allar að því, að hjer sje verið að stofna til sjerstöðu fyrir prestana, en þetta er algerlega rangt, eins og jeg hefi áður sýnt fram á. Þá sagði hæstv. fjrh. (M. G.), að það hefði orðið að samkomulagi, eða biskup hefði getað felt sig það, að styrkurinn til synodus yrði hækkaður, og þar við látið sitja. Hjer við er það að athuga, að biskup fór fram á 12000 kr., en þingið samþ. aðeins 8000 kr. En auk þess er líka aðgætandi, að þessi styrkur til synodus er í raun og veru óviðkomandi þessu, sem hjer ræðir um, því að meginhluti hans, eða 9/10, fara til prestsekkna.

Ef frv. þetta verður samþ., mundi þessi litli styrkur falla að öllu leyti til prestsekknanna.

Held jeg, að hv. deild hafi felt hækkunina, sem hv. fjvn. lagði til, einmitt með það fyrir augum að samþ. þetta frv., og má því segja, að hún hafi gefið fyrirheit um, að samþ. frv.