21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (3123)

98. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það má búast við æðimiklum afleiðingum, ef frv. þetta verður samþ. Fyrst og fremst mundu fleiri sýslufjelög fara fram á, að sýsluvegir þeirra yrðu gerðir þjóðvegir og kostaðir af landsfje. Úr þessari sýslu liggur enginn sýsluvegur yfir í aðrar sýslur. En þá fyrst getur vegurinn talist með þjóðvegum, ef hann liggurinn í fleiri sýslur. Búast má við, að þau sýslufjelög, sem kosta vegi yfir í aðrar sýslur, eigi auðvelt með að fá kröfum sínum í þessa átt framgengt, ef þessari tekst það. Í öðru lagi væri með þessu viðhaldsskyldu sýsluvega velt yfir á landssjóðinn. Enn fremur mætti búast við, að viðhald flutningabrauta kæmist yfir á landssjóðinn, því þær standa þó skör hærra en sýsluvegir, og eru bygðar á landssjóðs kostnað.

Jeg ætla aðeins lauslega að minnast á höfuðatriðin í ræðu hv. flm. (E. Þ.). Hann talaði um, hve þungt sýslunni veittist að standa straum af vegunum og greiða vexti og afborganir af vegalánunum.

Jeg kannast við, að það muni allerfitt, en það má þó gæta þess, að vegurinn var lagður á þeim tímum, sem allur vegakostnaður var svo mikið minni en nú, að það þolir engan samanburð við þann kostnað, sem nú er, og þau hjeruð, sem beðið hafa eftir vegum eða vegaframlögum úr landssjóði þangað til nú í dýrtíðinni, eru því margfalt ver farin.

Jeg sting upp á, að frv. þetta fari í fjárveitinganefnd, því það er engin nefnd í þinginu, sem fjallar eins mikið um vegamálin eins og hún, eða er þeim jafnhandgengin.