21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (3124)

98. mál, vegir

Þorsteinn Jónsson:

Fje til vegagerða hefir verið mjög misskift milli hinna ýmsu hjeraða landsins. Um sum hjeruð liggja þjóðvegir eftir þeim endilöngum, sem kostaðir hafa verið af landssjóði. Önnur hjeruð eru þjóðvegalaus og hafa fengið lítið fje til vega sinna úr landssjóði. Enginn hluti landsins mun ver settur, hvað þetta snertir, en norðausturhlutinn, eða Norður- Múlasýsla og Norður-Þingeyjarsýsla. Norður-Múlasýsla má heita þjóðvegalaus. Það liggur að vísu þjóðvegur frá Seyðisfirði og þvert yfir Hjeraðið og upp Jökuldal, og norður Möðrudalsöræfi. En Jökuldalur er strjálbygðasta sveit sýslunnar og er afskektur. Fjölbygðustu hlutar sýslunnar liggja langt frá þjóðveginum. Norður-Þingeyjarsýsla er þjóðvegalaus. Að vísu liggur þjóðvegurinn frá Möðrudal um Grímsstaði á Fjöllum. En Grímsstaðir eru langt frá fjölbygðum mannabygðum. Til þjóðvegarins alla leið frá Jökuldal og til Mývatns mun ríkissjóður aldrei kosta neinu. Bæði er það, að hann liggur um langar óbygðir, og svo er hann fremur góður vegur frá náttúrunnar hálfu.

Hv. samgöngumálanefnd 1919 tók vegamálið til rækilegrar íhugunar og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri sjerstaklega í tveim landshlutum, sem þörf væri á nákvæmri rannsókn á því, hvort ekki bæri að gera sýsluvegina að þjóðvegum. Annar vegurinn, sem hún hafði sjerstaklega fyrir augum, var sá, sem hv. flm. (E. Þ.) talaði um, frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Hinn var aukapóstleiðin frá Fossvöllum út Jökulsárhlíð, yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar; þaðan um Sandvíkurheiði, norður Langanesstrandir, yfir Brekknaheiði og þaðan þvert yfir Norður-Þingeyjarsýslu til Húsavíkur. Eins og hv. þm. munu kannast við, var samþ. á Alþingi 1919 till. til þál. frá samgöngumálanefnd, þar sem hæstv. stjórn var falið að láta fram fara rannsókn á því hvort rjett væri, að fjölga þjóðvegum og flutningabrautum, og hvar sú fjölgun ætti helst að verða. Nú vil jeg spyrja hæstv. stjórn, hvað hún hafi gert í þessu máli, því henni hlýtur að vera kunnugt um, að Alþingi 1919 ætlaðist til, að rannsóknin færi fram sem allra fyrst.

Það hefir verið deilt nokkuð um það, í hvaða nefnd þetta mál ætti að fara. Hæstv. atvrh. (P. J.) vill láta það fara til fjvn. Jeg veit ekki betur en að það sje brot á þeim venjum, sem ráðið hafa hjer á þingi áður, því vegamál hafa ávalt farið til samgmn.