21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (3126)

98. mál, vegir

Flm. (Einar Þorgilsson):

Hæstv. atvrh. (P. J.) andaði þvert í garð þessa frv. Bygði hann á því, að þessi umræddi vegur lægi aðeins um eina sýslu, og ekkert yfir í aðrar — ef jeg hefi heyrt rjett mál hans. Í ástæðum frv. er þess þó getið, að hann liggur til Hafnarfjarðar (P. J.: Er Hafnarfjörður ekki í sýslunni?), og rennur þar út í þjóðvegarspottann, sem tengir Hafnarfjörð og Reykjavík. Hann segir, að ekki sje brýnni þörf í einni sýslu en annari. Jeg held, að hjer sje áreiðanlega mest þörf. Hver sýsla á landinu hefir einhvern þjóðvegarspotta. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu er aðeins 3 km. spotti þjóðvegur. Þori líka að fullyrða, að hvergi sjeu lengri sýsluvegir. Sem sagt eins langir og hjeðan austur að Þjórsá. Sýslan verður því að leggja stórfje til viðhalds á vegum og vegagerðar.

Hæstv. atvrh. (P. J.) segir, að þessi sýsluvegur hafi verið gerður á ódýrum tímum. En fjárhæðin er ógoldin, og hana verður að greiða, hvort sem hún er frá ódýrum tíma eða ekki.

Þýðing vegarins er mjög mikil, því hann er mjög fjölfarinn. Eins og tekið er fram í ástæðunum, þá liggur hann að 5 kauptúnum, aflasælum fiskiverum og tveim kaupstöðum Reykjavík og Hafnarfirði, og tengir saman aðalvegakerfi Suðurlandsundirlendisins. Það liggur því í hlutarins eðli, að hann þarf meiri framlög en vegur, sem liggur milli tveggja strjálbygðra hjeraða, og þetta sýnir best ályktunin frá þinginu 1919.

Annars skal jeg ekki þrátta um það, hvort vísa eigi þessu til fjárveitinganefndar eða samgöngumálanefndar. En þá bregður þingið vana sínum, ef þessu verður ekki vísað til samgöngumálanefndar, eins og t. d. þál., sem minst hefir verið á, frá 1919, en hún kom frá samvinnunefnd samgöngumála.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, að ef þetta yrði samþ., væri hann reiðubúinn til þess að koma með samskonar kröfu fyrir kjördæmi sitt. Jeg vil ekki þrátta um það, hvort krafa hans hefði við rök að styðjast, en hún getur ekki rýrt gildi þeirrar sanngjörnu kröfu, sem jeg ber hjer fram fyrir Gullbringusýslubúa.

Að lokum vil jeg svo leggja áherslu á það, að málið fái að ganga til 2. umr., og verði síðan vísað til samgmn.