03.03.1921
Efri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Meðferð landbúnaðarnefndarinnar á þessu máli sjest á þskj. 71. Nefndin leggur til, að hv. deild samþ. frv. með breytingartill. nefndarinnar. Allar breytingarnar, nema sú síðasta, eru orðabreytingar til betra máls. Það vill verða hjer, sem oftar, þegar þýtt er úr erlendu máli, að íslenskan er ekki eins góð og ætti að vera. Þar með er jeg ekki að segja, að nefndinni hafi tekist að laga málið á frv. sem þurft hefði. Hún tók helst þau orð og setningar, sem merktu sig úr að einhverju leyti í þessu atriði. Jeg þarf ekki að taka hjer til meðferðar hvert einstakt atriði; málið liggur svo ljóst fyrir. Síðasta breytingin er efnisbreyting, sem sje við 9. gr. Sektarákvæðið virtist nefndinni alt of lágt. 10 kr. sekt aftrar engum frá að hafa brögð í tafli. Kaupandinn á að vísu rjett á að fá uppbót, eftir mati, ef varan reynist öðruvísi en tilskilið er, en þá er eftir að ákveða sektirnar fyrir samningsbrot, og önnur brot gegn fyrirmælum laganna. Nefndin leggur því til, að sektarákvæðið hækki, þannig, að lágmarkið tífaldist, en hámarkið tvöfaldist.

Jeg álít ekki þörf á að tala um þetta neitt nánar, nema þá ef umræðurnar gefa sjerstaka ástæðu til þess.