07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (3142)

120. mál, launalög

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má vel vera, að það sje ekki nema eðlilegt, að farið sje fram á slíka breytingu sem hjer er gert. Það er hverju orði sannara, að framlög til starfsmanna ríkisins eru tiltölulega mjög há, en jeg hygg óefað, að þær breytingar, sem frv. fer fram á, geti ekki samrýmst settum lögum. Það verður að líta á launalögin eins og samning, sem gerður er við embættismenn ríkisins, og er þá ekki hægt að breyta þeim einhliða, ekki síst ef að er gáð, að flestir starfsmenn ríkisins hafa beint eða óbeint gengið undir hin nýju launalög. Eftir þeim lögum eru launin föst laun með ákveðinni uppbót. Jeg er ekki viss um, að það yrði örðugra að breyta föstu laununum heldur en uppbótinni. Ef svona breyting væri leyfileg einhliða, þá mætti breyta fleiru, t. d. taka aðrar vörur, sem gjaldmælirinn væri reiknaður eftir. Allra síst virðist mjer geta komið til mála að breyta til á þessu ári, því að nú er búið að ákveða launagreiðsluna eftir verðlagi í okt. 1920.

Þegar ákvæðið um endurskoðun launalaganna 1925 var tekið í launalögin 1919, þá var það þar með bundið, að engin breyting gæti orðið á uppbótinni til þess tíma fyrir þá menn, er í embætti væru komnir áður en breyting væri á gerð.

Mjer virðist rjett, að málinu sje vísað til nefndar, og kæmi þá það aðallega að minni hyggju til hennar að rannsaka, hvort breyta mætti á þann hátt, er frv. ætlast til. Hygg jeg nefndina munu komast að þeirri niðurstöðu, að það sje ekki fært.