07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

120. mál, launalög

Magnús Jónsson:

Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir að mestu sagt það, sem jeg vildi segja. Jeg hefði þess vegna ekki haft ástæðu til að kveðja mjer hljóðs, ef ekki væri fyrir þá sök, að jeg tel óþarfa að láta málið fara lengra en í gegnum þessa umr. Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir gert grein fyrir lagaatriði þessa máls, og er enginn vafi á því, hvernig í því liggur, og held jeg, að óþarfi sje að nefnd athugi svo augljóst mál.

Á þessu þingi hefir áður komið frv. Í svipaða átt, og fjekk það þau úrslit, sem jeg verð að telja heppilegust; það var tekið aftur. Það væri æskilegt, að eins færi um þetta frv., þó að æskilegast væri, að það hefði aldrei komið fram. Jeg tel það varla vansalaust Alþingi að samþ. eða jafnvel ræða frv. sem þetta, og jeg held, að best sje að stöðva það sem fyrst.

Það þarf ekki að væna mig um það, að jeg standi hjer upp af því, að jeg sje embættismaður. Jeg tala hjer sem þm., og þessi breyting mun engin áhrif hafa á laun mín.

Eins og kunnugt er voru launalögin frá 1919 endir á langri deilu. Það var langt síðan, að raddir heyrðust um það, að launin væru óhæfilega lág í samanburði við verðlag, og var það viðurkent af milliþinganefndinni í launamálinu 1914–15. En á stríðsárunum keyrði fyrst um þvert bak. Ósanngirni launanna varð þá svo gífurleg og augljós, að ekki var lengur hægt að skjóta skolleyrum við rjettmætum kröfum embættismanna. Síðan hefir staðið óslitin barátta milli þeirra og löggjafarvaldsins eða Alþingis. Og loks sannaðist hið fornkveðna, að svo má brýna deigt járn að bíti um siðir; embættismennirnir, sem enginn getur ásakað um framhleypni, ákafa eða óróasýki, fóru að hugsa til hreyfings. Jeg vil ekki fara að rifja mikið upp það, sem liðið er, en jeg þori að fullyrða, að launalögin eru að nokkru leyti orðin til fyrir þennan þrýsting. Það liggur við að maður haldi, að launalögin 1919 hafi verið samþykt í einhverju fáti, ef dæma má eftir því, hve margir sýnast nú þegar vera farnir að sjá ofsjónum yfir umbótum þeirra. En þeirra vegna, sem ef til vill eiga erfitt með að halda fullri heilsu, ef þeir halda, að starfsmönnum ríkisins sje sýnd full sanngirni, skal jeg geta þess, að það var fjarri því að svo væri gert með þessum lögum. Það eru ekki færri en 5 takmarkanir á fullri sanngirni.

Fyrst var 25% bætt við, áður en verðstuðullinn kom. Næst er það, að dýrtíðaruppbót er aðeins af 2/3, og hún getur ekki orðið meiri upphæð en 3000 kr.; launin mega ekki verða hærri en 9500 kr. alls, og halli undanfarandi ára hefir ekki verið bættur upp. Svo þó að launalögin frá 1919 hafi verið mikil bót, hefir þó ekki verið farið neitt gífurlega í rjettlætið, og enn eru launin tiltölulega lægri en þau voru, þegar peningar voru í skaplegu verði.

Mjer finst því úrræðið, sem taka á til þess að bæta fjárhag landsins, hálffátæklegt, og jeg held, að ekki sje farið að rjetta endanum til að spara. Þó að jeg óttist ekki, að embættismenn fari að hefna sín — þeir eru yfirleitt ekki þess konar menn — þá getur verið varhugarvert að veitast á þennan hátt að þeim mönnum, sem landinu eru svo ómissandi, og er það ekki vel statt, ef þeir bregðast á einhvern hátt. Jeg hefði talið það heppilegra að reyna fyrst samningaleið, að spyrja embættismennina blátt áfram, hvort þeir vildu ekki slaka til, vegna þess, hvernig fjárhag landsins væri háttað. Jeg efast ekki um, að sú leið hefði orðið happadrýgri en þetta úrræðaleysi, þetta örþrifaráð, sem nú hefir verið tekið, og sem auðvitað hefir nú þegar gereyðilagt hina leiðina. Og jeg held að best sje að stemma stigu fyrir því sem allra fyrst. Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir lýst því, hvaða lögfræðislegar afleiðingar þetta gæti haft, og kæmi þar fram kaldhæðni í garð hv. flm. (S. St.), ef frv. yrði til þess að ekkert sparaðist annað en sanngirni nokkurra háttv. deildarmanna.

Jeg held ekki, að frv. þurfi að fara í nefnd til þess, að það atriði, sem hæstv. forsrh. (J. M.) benti á, yrði rannsakað. Jeg sje ekki betur en að 33. gr. launalaganna taki af öll tvímæli. Takmarkið 1925 sýnir einmitt, að um samning er að ræða, og breytingin, sem fram er borin, verður ekki skoðuð á annan hátt en tilraun til að rjúfa þann samning. En jafnvel þó að tímatakmarkið (1925) væri alls ekki í lögunum, þá hljóta launalögin að vera bindandi samningur gagnvart þeim embættismönnum, sem þegar hafa fengið veitingu fyrir embætti eftir þeim. Auk þess má benda á það, að fyrir gæti komið, að vörur hækkuðu í verði aftur, að minsta kosti á einhverju tímabili, og yrði þá tap að breytingunni. Þá væri ver farið en heima setið, nema að embættismenn neituðu að taka á móti hækkuninni, en við því er varla að búast eftir að hinn málsparturinn, þ. e. ríkið, hefði sýnt sinn vilja, að fara út í það ýtrasta. Svo mætti líka alveg eins vænta þess, að Alþingi breytti enn þessu ákvæði, ef vöruverð færi að hækka. Þá mundi ekki fordæmið frá 1921 vera gagnslaust.

Háttv. flm. (S. St.) talaði um sanngirni, og var gott að heyra það, þó að óneitanlega væri undarlegt að heyra það í þessu sambandi. En þetta er einmitt það, sem embættismenn voru árum saman búnir að biðja um, sanngirni og ekkert annað. Embættismenn hefðu ekkert á móti því, að sanngirnin yrði dálítið meira en umtal. Þeir hafa ekki farið fram á annað öll þessi ár. En þá hefir verið haft heldur lægra um það orð hjer. Löggjafarvaldið hefir altaf verið á eftir tímanum, hefir stilt sanngirninni í hóf, en svo er kallað, þegar klipið er um of við neglur sjer. En nú alt í einu, þegar vindurinn blæs í þá átt, er tekið að tala um sanngirni. Seinna koma sumir dagar og koma þó. Í þessu frv. er vitanlega ekki farið fram á neina sanngirni, en öllu má nafn gefa. En hitt er satt, að ríkissjóði er þörf á að spara, og hefði þá verið heppilegast að reyna samningaleiðina.

Háttv. flm. (S. St.) talaði um hótunarbrjef, sem embættismenn hjer í Reykjavík hefðu sent þinginu. Þetta er ekki rjett frá sagt, því fulltrúaráð embættismanna hefir aðeins sent hógvært og kurteist brjef og sýnt fram á ósanngirni þessa frv. Þeir eru fulltrúar fyrir embættismenn alls landsins, og hafa fult umboð til þess að tala í nafni þeirra. (S. St.: Ekki í mínu nafni). Það getur þá verið, að hv. þm. (S. St.) sje ekki í þessu sambandi, en hann er þá undantekning.

Það var eins sagt 1919, að embættismenn hefðu hótanir í frammi. En þeir rituðu aðeins Alþingi um þarfir sínar, sýndu fram á, að þeir gætu ekki lifað af launum sínum án þess að safna skuldum, og lýstu því yfir, að þeir sæu sjer ekki fært að hafa á hendi embætti sín, ef launin yrðu ekki hækkuð. Þetta var fullkomlega satt frá sagt, og var sjálfsagt af embættismönnunum að tilkynna fulltrúum þjóðarinnar, hvernig ástatt var. Að kalla slíkt hótanir nær vitanlega engri átt, og jeg sje ekki, að það sje neitt ósvífið, þó starfsmenn ríkisins tali við fulltrúa þjóðarinnar. Þeir eru líka fulltrúar þjóðarinnar, og það ekki f ulltrúar, sem hún kastar inn þennan daginn og út þann næsta, og án þess að kasta nokkurri rýrð á mikilvægi fulltrúa þjóðarinnar á þingi, þá vil jeg segja, að hinum fulltrúunum sje í raun rjettri engu ábyrgðarminna starf falið. Þeir ættu að minsta kosti að geta fengið að tala við hina, án þess að það sje kallað ósvífni eða hótun. Leyfist kettinum að líta á kónginn.

Ef frv. þetta heldur lengra, verður það til þess að opna launalögin, ef svo má segja, verður til þess að hefja um þau deilur og taka þau til meðferðar á fleiri sviðum, en jeg hefi heyrt, að einhverjir sjeu hræddir við það. Jeg tel það sjálfsagt, ef farið verður að ræða þessi lög yfirleitt, að embættismenn komi fram með ýmsar kröfur og er sennilegt, að sumar verði svo, að ilt verði að hafna þeim, með góðri samvisku. Jeg held þess vegna, að heppilegt verði fyrir alla málsparta að láta frv. ekki fara lengra, og er engin ástæða til að athuga það í nefnd, því að það ætti að vera öllum auðskilið. Sparnaðurinn verður enginn, eins og sýnt hefir verið fram á, en frumvarpið verður til þess að koma af stað deilu milli ríkisvaldsins og embættismanna, og útiloka líklega samkomulag við þá síðar. Jeg vænti þess vegna, að menn greiði atkv. gegn frv. til 2. umr.