07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (3168)

120. mál, launalög

Magnús Pjetursson:

Jeg vil aðeins gera grein þess, hvers vegna jeg greiddi og mun greiða atkv. móti þessu frv.

Hefði ákvæði þetta verið sett inn í launalögin upphaflega, hefði jeg ekkert haft við það að athuga. En nú er jeg mótfallinn því sökum þess, að jeg lít svo á, og veit að margir lögfræðingar, þar á meðal hæstv. forsrh. (J. M.), líta einnig svo á, að hjer sje um samningsbrot að ræða. Munu því hlutaðeigendur geta fengið rjett sinn, ef þeir leita til dómstólanna, og sýnist mjer að það stappi því næst því að mega teljast ósæmilegt, að þingið samþykki lög, sem auðsæilega brjóta samninga, sem þingið hefir áður gert við menn þessa.