08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (3192)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Magnús Jónsson:

Jeg sagði nú svo margt um þetta mál, þegar bráðabirgðalögin voru til umr. á dögunum, að afstaða mín ætti að vera öllum ljós, og ætti jeg því að geta verið fáorður. Aðallega kvaddi jeg mjer hljóðs til að mótmæla því, að undarlegt megi það kalla, að frv. þetta er fram komið. Hæstv. atvrh. (P. J.) og hv. þm. Ak. (M. K.) sögðu, að frv. þetta kæmi í bága við það, sem hv. deild hefði gert áður, þegar bráðabirgðalögin voru á ferðinni. Jeg veit ekki, hvernig jeg á að skilja þetta; mjer er að minsta kosti ekki kunnugt um, að þetta mál, sem nú liggur fyrir, hafi verið hjer til umr. áður.

Þegar jeg greiddi atkv. á móti bráðabirgðalögunum, ljet jeg ekki neitt í ljós um það, að jeg ætlaði að greiða atkv. með heimildarlögunum, sem þau höfðu verið bygð á, svo jeg tel mig hafa alveg óbundnar hendur í þessu máli.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að það lýsti ljettúð að koma með þetta frv. nú; en jeg vil snúa því við og segja, að það lýsi einmitt ljettúð þeirra manna, sem vilja nú láta stjórnina hafa þessa heimild, og óbundnar hendur að beita henni eftir vild, eftir að Alþingi hefir felt bráðabirgðalögin og mótmælt með því aðferð þeirri, er stjórnin beitti í máli þessu.

Og um dagskrána, sem hv. sami þm. (Sv. Ó.) bar fram, vona jeg, að allir hv. deildarmenn sjeu sammála um að fella, enda er hún það vansmíði, að jeg get varla búist við, að nokkur maður geti greitt henni atkv. sitt, nema þá ef vera skyldi flm. sjálfur, og getur hann þá ekki gert það nema af föðurlegri ræktarsemi gagnvart sínu eigin afkvæmi.

Það er miklu hreinna og drengilegra að fella frv. Annaðhvort treystir maður stjórninni, að hún misbrúki ekki heimildir þær, sem henni eru gefnar, eða lætur vera að gefa henni þær. Að setja takmörk um það, hvernig hún eigi að framfylgja heimildinni, lýsir megnasta vantrausti á stjórninni, og hefði jeg síst búist við því úr þessari átt, sem það kemur úr, en kann ske, að þar sje nú að rofa í lofti. (Sv. Ó.: Ætlar hv. þm. (M. J.) þá að greiða atkv. með dagskránni?). Jeg hefi áður lýst skoðun minni í vantraustsmálinu, og þykist ekki þurfa að endurtaka það nú, og síst mundi jeg velja þessa óskapnaðarleið til þess að láta hana í ljós. Jeg þori vel að gera það beint og skýrt, og hefi gert það. En treysti menn ekki stjórninni til að framfylgja heimildinni, þá er ekki annað að gera en taka frá henni heimildina.

Jeg þykist ekki þurfa að tala frekar um gagnsleysi þessara viðskiftahafta; jeg hefi gert það áður. Jeg hefi líka bent á, að þeir tímar sjeu nú, að ekki er hægt að bera þá saman við reynslu undanfarandi ára. Nú er kaupþol manna og gjaldþol þann veg, að fæstir munu kaupa óþarfann. Þeir blátt áfram geta það ekki; þeir hafa ekki gjaldið, sem greiða skal með. Og til hvers er þá að flytja inn þær vörur, sem ekki verða keyptar? Það er kaupþol einstaklinganna og gjaldþol, sem er þungamiðja þessa máls og það mun í reyndinni verða þær einu og rjettlátustu innflutningshömlur, sem þjóðin sættir sig við.