08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Hákon Kristófersson:

Jeg vil taka í sama streng og sumir aðrir hv. þm., sem hjer hafa talað, að mjer finst það alls ekkert undarlegt, þó að þetta frv. hafi komið hjer fram. Og ef það lýsir ljettúð að koma hjer fram með þetta frv., þá finst mjer það ekki minni ljettúð að vilja ekki leyfa því að fara til nefndar, heldur vísa því frá þegar með dagskrá.

Hvernig sem kann að fara um afdrif þessa frv., þá vil jeg þó hiklaust, að deildin verði við ósk háttv. flm. (Jak. M.) og vísi málinu til nefndar, því þá geta vel komið fram frá nefndinni ýmsar góðar og hollar bendingar um, hvaða vörur eigi að teljast ónauðsynlegar, og hverjar ekki.

Mjer finst það nú satt að segja orka tvímælis, hvort allar vörurnar í reglugerð stjórnarinnar geti talist ónauðsynlegar, ekki síst þegar ýmsar vörur eru þá látnar þar óhreyfðar, sem ekki leikur vafi á, að sjeu hreinasti óþarfi, svo sem varan, sem háttv. þm. Árn. (Þorl. G.) drap á.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði að vísu, að það væri bann á tóbaki. En jeg get nú ekki litið svo á, jafnvel þó einkasölufrv. gangi fram, því það hljóðar einmitt um að selja þessa vöru í landinu, en ekki um hitt að banna hana. Að vísu mega þá ekki einstakir menn panta tóbakið frá útlöndum, en mjer finst sama, hvaðan óþarfinn kemur, og ekkert betra, að hann komi endilega frá stjórninni.

Jeg get ekki skilið orð hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) öðruvísi en að hann áliti mjög vafasamt, hvort stjórnin hefði nokkra heimild til þess að banna innflutning á óþörfum varningi. En jeg vona, að þetta sje ekki rangt skilið.

Jeg lít nú svo á, að þó lögin frá 8. mars verði niður feld, þá geti þó stjórnin, ef í öngþveiti lendir í fjármálunum, gefið út bráðabirgðalög til þess að banna innflutning á sjerstökum vörutegundum Hún hefir gert það áður. Og jeg sje ekki annað en sú leið sje ávalt opin.

Jeg verð einnig að hallast að því, að hjer sje um svo smávægilegan sparnað að ræða, að reglugerðarákvæði hæstv. stj. bæti að litlu leyti úr peningavandræðum okkar, svo að við þar fyrir munum ekki betur staddir fjárhagslega en þó engin reglugerðarákvæði væru til.

Því hefir verið fleygt hjer, að hv. þm. Reykv. væru á móti innflutningshöftum á óþarfa, af því að Reykjavík þurfi svo mikið á óþarfanum að halda. En mig undrar það ósamræmi, að enginn skuli minnast einu orði á að takmarka innlenda eyðslu, svo sem bíó, kaffihús o. fl., en halda því þó jafnframt fram, áð ef maður kaupir sjer eina dós af mjólk, þá sje komið út á stórhættulegar brautir, svo jeg noti ummæli hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Um það, að hjer sjeu til nógar ær og kýr í landinu til þess að framleiða mjólk handa öllu landsfólki, þá er það að segja, að ær og kýr hjer hafa ekki í öllum árum — í það minsta ekki að vorinu — reynst mjög mjólkurháar. Og segi jeg þetta þó engan veginn til þess að óvirða okkur bændur heldur af því, að jeg tel best að skýra frá hlut unum eins og þeir eru raunverulega.

Jeg vil svo að lokum láta það í ljós, að jeg mun greiða atkv. á móti þessari rökstuddu dagskrá, enda þótt jeg neiti því ekki, að hún sje komin frá mætum og mikilsvirtum þm., sem vitanlega gerir ekkert öðruvísi en honum virðist best henta fyrir föðurlandið, en mjer finst hún ekki bygð á nægilegum rökum til þess að jeg geti ljeð henni atkv. mitt. Og ummæli hv. þm. (Sv. Ó.) hafa heldur ekki getað sannfært mig.