08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Jón Auðunn Jónsson:

Það eru aðallega tvær ástæður, sem meðhaldsmenn þessa frv. hafa tekið fram.

1. Að það sje lítið flutt inn af óþarfa og því lítið, sem sparast við bannið. Jeg er hjer á annari skoðun. Jeg er sannfærður um, að hingað mundu Verða fluttar óþarfavörur fyrir miljón kr., ef innflutningshöftunum væri í burtu kipt, og byggi jeg þann útreikning á athugunum viðskiftamálanefndar. En auk þess er það vitanlegt, að ekki minna en 100 þús. kr. virði flyst inn í landið til einstakra manna í póstbögglum.

2. Að á meðan gjaldeyrisskortur sje í landinu, þá sje lítið keypt.

En mjer er kunnugt um það, að það er hægra að fá lánsfje erlendis til kaupa á óþarfa heldur en á nauðsynjavöru. Þess vegna mun einmitt sú verða raunin á, að þegar umsetning verslunarinnar minkar sökum gjaldeyrisskorts, þá munu kaupmenn einmitt miklu fremur taka óþarfann, af því þeir geta fengið hann að láni, en láta nauðsynjavörur sitja á hakanum.

En einhvern tíma kemur þó að skuldadögunum, og þá þarf að borga óþarfann.

Jeg fæ ekki sjeð, að stjórninni verði gefinn heppilegri heimild til takmörkunar innflutnings en hún þegar hefir samkvæmt lögunum frá 8. mars 1920, og er því algerlega mótfallinn því að nema þau lög úr gildi. Og ef þessi höft hafa þótt nauðsynleg í fyrra, þá ættu þau ekki síður að vera það nú.

Það er mikið búið að ræða um málið, og skal jeg því ekki segja fleira, en vil þó leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá í málinu, er jeg vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta.

þar sem deildin lítur svo á, að rjett sje, að stjórnin haldi heimild þeirri, sem henni er gefin með lögum nr. 1, 8. mars 1920, til takmörkunar innflutningi á óþörfum varningi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.