15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (3209)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Ólafur Proppé:

Við 2. umr. um heimildarlögin frá 8. mars lýsti jeg afstöðu minni til innflutningshaftanna, og er því ástæðulaust að endurtaka hana nú. En jeg leyfi mjer að mótmæla algerlega þeirri staðhæfingu hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. þm. Borgf. (P. O.), að við nefndarmenn sjeum bundnir atkv. um þetta frv.

Jeg gat þess einmitt þá, að af 10 nefndarmönnunum hefðu 7 verið sammála um það, að stjórnin ætti ekki að nota heimildarlögin frá 8. mars.

Viðvíkjandi orðum hæstv. forsrh. (J. M.) hefir hv. flm. frv. (Jak. M.) tekið af mjer ómakið. Með þessu frv. er það alls ekki meiningin að afnema algerlega öll innflutningshöft. Það er undir vilja þingsins komið, að hve miklu leyti það verður gert, enda þótt frv. verði samþ. Mun það og meiningin, að sú nefnd, sem væntanlega fær frv. til meðferðar, geti komið með till, um það, hvaða vörutegundir skuli banna.

Mun jeg því hiklaust greiða atkv. með því, að frv. gangi til nefndar.