15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Pjetur Ottesen:

Jeg get enn ekki orða bundist um það, og undrast yfir því, að menn úr viðskiftamálanefnd skuli nú lýsa því yfir, að þeir muni greiða atkv. með afnámi heimildar fyrir stjórnina til þess að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi. Eins og jeg hefi áður tekið fram, og nál. ber með sjer, varð það að samkomulagi í viðskiftamálan., að heimild þessi skyldi látin standa, og að það væri lagt á vald stjórnarinnar sjálfrar, hvort, eða að hve miklu leyti hún notaði heimildina, til þess að banna innflutning óþarfavarnings í landið. Grundvöllurinn var þá lagður sá, að heimildin næði aðeins til þess varnings, er væri óþarfi í eðli sínu.

Ef þessir menn úr viðskiftamálanefnd ætla nú að ganga frá því að láta stjórnina halda þessari heimild, þá hlýtur ástæðan til þess að vera sú, að þeim þyki stjórnin hafa gengið lengra en rjett var í reglugerð sinni um bann óþarfs varnings; með öðrum orðum, stjórnin hafi bannað þar þann varning, sem ekki var í eðli sínu óþarfi. En sú ástæða nær að mjer finst harla skamt, því það, sem þar er bannað að flytja inn, eða lagðar innflutningshömlur á, má tvímælalaust telja óþarfar vörur, sem við getum vel án verið.