09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (3218)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti sjerlega vænt um að heyra hina ítarlegu ræðu hv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Sýndi hann sig þar sjálfan rækilega, og hve hjartfólginn sparnaðurinn bæði honum og hans jafningjum er, sem koma fram eins og meinhorn við hverja einustu atkvgr. um fjárveitingu til sjálfsagðra skóla eða til einstakra efnilegra manna og fá með engu móti unnað þeim þess, en sje um jarðarskika að ræða, sem landssjóður á og gæti haft tekjur af, þá er sjálfsagt að flýta sjer að því að fleygja honum í hendur einstakra manna, til þess að losa landssjóðinn við umstangið að taka á móti skildingunum. Og þegar svona stendur á, þá eru nógar ástæðumar, sem mæla með því, þörfin á landinu alveg óhjákvæmileg, beinlínis lífsskilyrði að fá landið til eignar o. s. frv. Annars furðar mig á því, að hv. þm. (St. St.) skyldi ekki líka koma með frv. um sölu á Vestmannaeyjum. Það væri þó sjálfsagt hægt að finna einhvern, sem kæmi það vel að eignast þær. En jeg hygg, að það þýði ekki fyrir þennan háttv. þm. (St. St.), þótt málfimur sje, að reyna að telja hv. þm. trú um, að Siglfirðingum sje fyrirmunaður afnotarjettur á landinu nema því aðeins, að þeir fái það til eignar, því að það er lafhægt með öðru móti til erfðafestu.

Annars var það eigi tilgangur minn, að halda langa ræðu, en vildi aðeins þakka hv. þm. (St. St.), að hann ljet eyrun koma út á rjettum stað, svo að enginn skyldi villast á honum síðar.