09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (3220)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Jón Þorláksson:

Jeg vil ekkert staðhæfa um það, hvort þetta frv. er tímabært eða ekki. En jeg get ekki stilt mig um að segja nokkur orð út af ummælum þeirra hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Mjer virtist sem sje koma fram í ræðum þeirra skoðun, sem brýtur algerlega í bága við mína skoðun á málinu í heild sinni.

Reynslan undanfarið hefir sýnt, að fólki fækkar fremur en fjölgar í sveitunum, en það flyst til stærri og minni sjóþorpa. Það varðar landið miklu, að í þessum sjóþorpum skapist skilyrði fyrir því, að tilsvarandi menning geti risið þar upp og þrifist þar og sú, er frá fornu hefir haldist við í sveitum landsins. Helsta skilyrði þessa er það, að íbúum þorpanna gefist kostur á landi til ræktunar í smáum stíl, jafnhliða þeirri atvinnu, sem þeir fá í þessum þorpum.

Á Norðurlandi er það lífsskilyrði sjóþorpanna að geta stutt sig við landbúnað. Skilyrði sjávarútvegsins eru þar ekki svo hagstæð, að fólkinu sje með því trygð framtíðarafkoma. Þess vegna er nauðsynlegt, að bæjarfjelögin fái nægilega viðtækan umráðarjett yfir landinu í kringum sig til þess að geta miðlað einstaklingum landi til ræktunar og búskapar í smáum stíl. Þetta hafa margir sjeð, og í kaupstöðum og stærri sjóþorpum er það komið vel á veg, svo flest þeirra hafa náð eignarhaldi á miklu landi í kringum sig, sem áður var einstakra manna eign. En nú á það að vera óhæfa, eftir skoðun hv. fyrnefndra þm., að Siglufjarðarkaupstaður fái kauparjett á landi, sem hann nauðsynlega þarf í þessu skyni, og er landssjóðs eign. En jeg álít sjálfsagt að gefa kaupstaðnum kost á þessu landi, og jeg gæti mjög vel hugsað mjer að selja Vestmannaeyjar, en vel að merkja, bæjarfjelagi Vestmannaeyja og engum öðrum.

Jeg játa það, að það er hægt að ná þessum tilgangi á annan hátt heldur en með hreinum eigendaskiftum, en til þess vantar alveg löggjöf. En jeg sje ekki, að með núverandi löggjöf geti íbúarnir ráðist í þau atvinnufyrirtæki, sem þeir hafa ráðgert, og jeg álít nauðsynleg, nema þeir fái full eignarráð á nægu landi til þess.

Jeg lít talsvert öðrum augum á þetta mál heldur en hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Fyrir mjer er það ekkert stóratriði, hvort landssjóður eða hlutaðeigandi kaupstaður nýtur verðhækkunar á landinu í og utan kaupstaðarins. Mjer finst í rauninni eðlilegra, að kaupstaðurinn, sem með atvinnurekstri sínum hefir orðið verðhækkunarinnar valdandi, njóti góðs af henni. En þó að hjer sje talað um að selja landseign, þá er ekki tilætlunin að selja hana nema með sannvirði. Og má þá auðvitað taka tillit til væntanlegrar verðhækkunar í framtíðinni að því leyti, sem ástæða þykir til.

Jeg vil geta þess viðvíkjandi þessu frv., sem hjer liggur fyrir, að mjer þætti leiðinlegt, ef brýna nauðsyn bæri til að taka prestssetrið úr ábúð þess prests, sem nú situr þar, að honum nauðugum. Jeg hygg, að prestssetrið sje undir góðri stjórn hjá honum, og hann mun hafa átt manna bestan þátt í að koma kaupstaðnum eins upp og raun er á orðin. Mjer þætti þess vegna varhugavert að taka heimajörðina meðan hún er í hans ábúð, nema upplýst verði, að hann sje því samþykkur.