09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg hefi ávalt verið andvígur sölu opinberra jarðeigna frá því jeg kom á þing. Jeg hefi ekki viljað láta þjóðjarðirnar komast í hendur einstakra manna, sem ekki ræktuðu þær sjálfir, en seldu þær má ske öðrum og sleptu þeim í jarða braskshringiðuna.

Þegar þjóðjarðasölumálið var mest á ferðinni hjer á árunum, var milliþinganefnd skipuð í það og átti jeg sæti í henni. Þá virtist það vera almennur vilji manna hjer á landi, að þjóðjarðir yrðu seldar og kæmust sem mest á einstakra manna hendur. Hjeldu menn að með því yrði sjálfsábúð í landinu. Jeg var trúlítill á að sjálfsábúð yrði almenn með þessu móti, en af því að þjóðjarðasölustefnan var í sýnilegum meiri hl. meðal þjóðarinnar, gekk jeg að þeim miðlunarvegi að heimila sölu til ábúenda á þeim jörðum, sem eigi væru nauðsynlegar til opinberra eða almenningsþarfa og enn fremur heimila sölu til sveitar- og bæjarfjelaga til almenningsþarfa innan hvers fjelags; hvorttveggja þetta með fastbundnu skipulagi. Síðara atriðið gekk nú samt ekki fram, þegar þjóðjarðasölulögin voru samþykt.

Jeg hefi sömu skoðun og áður í þessu máli, og að því leyti get jeg vel samþ. þetta frv., sem hjer liggur fyrir. En mjer þykir það galli, að ekki skuli vera sett það skilyrði, að bæjarfjelagið skuli skila kaupinu aftur til hins opinbera, ef það vill farga, til þess að tryggja það, að eignin komist aldrei í einstakra manna hendur. Jeg vil skjóta því til hv. flm. að setja skýrt ákvæði í frv. í þá átt, hvort sem ræða er um stærri eða smærri heildir eignarinnar. Jeg býst við, að það sje venja bæjarfjelagsins að leigja út jarðahlutana til ákveðins tíma, en ef látnir eru af hendi lóðir til æfinlegra nota, hvort sem er á erfðafestu eða annan hátt, þá álít jeg það ófært.