09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Bjarni Jónsson:

Út af umræðum um það að selja beri slíkar opinberar eignir, þegar sveitar- eða bæjarfjelög eiga í hlut, þó annars sjeu menn andvígir sölunni til einstakra manna, vil jeg geta þess, að enginn nauður ætti til þess að reka, því varla getur bæjarfjelag verið í betri höndum en ríkissjóðs. það getur hjá honum fengið allan sama afnotarjett landsins og það annars hefir fyrir sanngjarnt gjald. Annars getur slík sala orðið talsvert varhugarverð, þar sem í hlut á bær eins og Siglufjörður, sem mikið lifir á útlendum atvinnurekstri, sem búast má við, að reyni því meira að ná þar yfirtökum, sem íslenski útvegurinn verður fyrir meiri skakkaföllum. Þar sem nú örlög slíkra þorpa eru ávalt mjög óstöðug, er því betra, að landið eigi grundvöllinn, til þess að geta haft þar hönd í bagga með, eins og það er yfirleitt skynsamlegasta og sanngjarnasta leiðin, að ríkið hafi sem mest af tekjum sínum af sínu eigin landi, í stað þess að vera að kría það út úr fátækum mönnum í allskonar ósanngjörnum álögum.

Jeg veit heldur ekki til þess, að þeir bæir, sem svona eru settir núna, hafi þar yfir nokkru að kvarta um kjör sín hjá ríkinu, t. d. Vestmannaeyjar. En kann ske það verði nú næsta stigið að stinga upp á því að selja Vestmannaeyjar einhverjum erlendum slorkóngi.

Annars fór hæstv. forsrh. (J. M.) nokkuð að bera saman fyrri skoðanir mínar og núverandi í þessum málum og mintist þar á það, að jeg hefði ólmur viljað selja Kjarnann hjerna á árunum. En hann mintist ekki á það, að þá var hann sjálfur alveg ófáanlegur til þess að selja þennan sama Kjarna. Það er þá með öðrum orðum ósköp svipað á komið með okkur, og jeg fyrir mitt leyti skammast mín ekkert fyrir það, þó jeg kunni að sjá betur nú en þá, en hitt er öllu verra með hæstv. ráðherra (J. M.), sem virðist sjá ver í þessu máli nú en þá.