09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (3227)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg skal ekki vera mjög langorður, enda er nú komið fram yfir þann tíma, sem vanalegt hefir verið að slíta fundi hjer í deildinni.

Það hafa nú ýmsir talað í þessu máli og kastað hnútum til mín. Meðal þeirra var hv. þm. Dala. (B. J.), er var með köpuryrði í minn garð, sem jeg ætla þó að leiða hjá mjer að mestu leyti að svara, enda læt jeg mjer þau í ljettu rúmi liggja. En þar sem hann kastaði því fram, að jeg, sem sparnaðarmaður. ætlaði að gefa Siglfirðingum Hvanneyrarland, þá verð jeg nú að segja, að nokkuð langt sje seilst til lokunnar. Jeg hefi sem sje ekkert talað um verð á jörðinni, og það af þeirri einföldu ástæðu, að um það hlýtur að fara eftir fyrirmælum kirkjujarðasölulaganna. — Eru því slík gífuryrði eins og mælt úti á þekju og ekki svara verð.

Aftur á móti hafa komið fram einstaklega góðlátlegar og skynsamlegar athugasemdir frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Aðeins vil jeg benda honum á, að núverandi prestur á Hvanneyri hefir ekkert að athuga við söluna. Þá var það háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hann benti á það, að lóðirnar mundu fara í hendur erlendra manna. En þá finst mjer, að þingið ætti þegar í upphafi að slá varnagla við slíku, og setja ákvæði í lögin, er banni bæjarfjelaginu að selja einstökum mönnum lóðir í stærri eða smærri stíl, og að það ákvæði nái jafnt til innlendra manna sem útlendinga. Enda kom lík athugasemd fram í ræðu hæstv. atvrh. (P. J.), og finst mjer því rjett fyrir þingið að taka fult tillit til þessa. Mun jeg því, eða nefnd sú, sem jeg vona að frv. gangi til, ráða til breytinga í þessa átt.

Þá var það hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem hafði það helst að athuga við frv., að presturinn ætti að hafa haglendið eftir sem áður. Það getur nú verið, að eftir orðalaginu megi skilja þetta svo, en þá er ekkert auðveldara en að breyta „haglendi“ í „hagbeit“, því meiningin er, að presturinn eigi aðeins að fá beitarafnot fyrir skepnur sínar í því landi, sem bæjarfjelagið falast eftir.

Að presturinn mundi skaðast við söluna, þá getur alls ekki verið um slíkt að ræða. Þingið hefir alls ekki leyfi til að láta hann bíða nokkum halla.

Að útlendingar standi á bak við þessa ósk Siglfirðinga; já, þá veit jeg ekki, hvort jeg á heldur að skoða það sem gætna athugasemd til öryggis eða beinlínis aðdróttun, og hana af verra taginu. Mjer er að minsta kosti algerlega ókunnugt um það, og hefi aldrei heyrt slíku fleygt fyr en nú. En þá er, eins og jeg tók áður fram, að slá varnaglann straks; setja í lögin ákvæði, er banni bæjarfjelaginu að selja einstökum mönnum lóðarspildur.

Annars vil jeg þakka þeim hv. þm., sem tekið hafa vel í þetta mál, og þá sjerstaklega hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann skildi, eins og hans var von og vísa, nauðsyn þá, sem mælir með því, að bæjarfjelögin sjálf geti orðið landeigendur og setið og starfað á sjálfs sín eign.

Lengur þykist jeg ekki þurfa að tefja umr., en jeg vil óska þess, ef háttv. deild lofar málinu að ganga til 2. umr., að hún vísi því til landbúnaðarnefndar.