28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (3232)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Eins og hv. þm. sjá af þingskjölunum, þá hefir allshn. ekki getað orðið algerlega sammála um þetta frv.

Minni hl. nefndarinnar hefir getað fallist á, að Siglfirðingar fengju keypta kirkjujörðina Leyning, og Hvanneyrarland að undantekinni Siglufjarðareyri. En meiri hl. allshn. hefir mælt með því, að Siglfirðingar fengju þetta alt til kaups, enda er það ósk Siglfirðinga sjálfra.

Meiri hl. nefndarinnar telur það í ýmsum tilfellum erfiðleikum bundið fyrir þetta bæjarfjelag að hafa ekki óskoruð yfirráð yfir bæjarlóðunum.

Margir menn biðja um að fá þar útmældar lóðir, sem auðvitað er, og það án þess að ætla að reka þar verslun eða atvinnu. En samkvæmt lögum frá 1917 er til þess ætlast, að atvinnurekendur fái lóðirnar eingöngu. Slíkir menn hafa því ekki rjett til að krefjast lóðanna, og er það bæði óeðlilegt og bagalegt. Þetta hefir að vísu ekki komið að sök enn þá, en við því má búast, að umsjónarmaðurinn sjái einhverja erfiðleika á því að mæla slíkum mönnum út lóðir. Og er þá illa farið, því þessir menn geta verið þarfir bæjarfjelaginu, ekki síður en hinir, kaupmenn og atvinnurekendur.

Það sem einkum vakir fyrir háttv. minni hl. nefndarinnar, er það, að það sje skaði fyrir ríkissjóðinn að selja eignina. Nú hefir presturinn 6 þús. kr. tekjur af þessum jörðum, og svarar það til þess, að söluverð jarðanna ætti að vera um 100 þús. kr., til þess að ekki yrði skaði fyrir prestinn, eða ríkis- sjóð, þegar presturinn fjelli frá. En hjer verður og að taka það með í reikninginn, að garðurinn til þess að varna sjógangi inn yfir Siglufjarðareyrina, er nú ónýtur orðinn, og telja verkfróðir menn, að endurbygging hans muni kosta 52 þúsund kr. En Siglfirðingar sjálfir telja þetta verk 100 þús. kr. virði, og munu fúslega vilja borga landeignina 100 þús. kr. meira, ef ríkissjóður vill kosta að öllu góðan og tryggan varnargarð. Jeg skal ekkert fara út í það hjer, hvaða verð sje hæfilegt fyrir eign þessa, en vil aðeins geta um, hvaða hagur eða óhagur hinu opinbera muni vera af sölunni. Og ef Siglfirðingar fá keypt fyrir t. d. 100 þús. kr., þá hefir ríkissjóður sömu tekjur af eigninni og áður, eða um 6 þús. kr., en losnar við að byggja varnargarðinn, sem að minsta kosti mundi kosta 52 þús. kr., og sparaði þá ríkissjóður sjer með sölunni vexti af því fje, eða um 3 þús. kr. árlega.

Jeg tek þetta 100 þús. kr. verð aðeins sem dæmi, aðeins til þess að sýna, að ríkissjóður sje skaðlaus af sölunni, þótt ekki væri verðið hærra. Nefndin gerir ekki neinar till. um verð, enda sjálfsagt, að dómkvaddir menn meti. eignina.

Nú kunna ef til vill einhverjir að segja, að lóðirnar muni bráðlega hækka í verði, og meiri hluti allshn. beri hjer hagnað Siglfirðinga meir fyrir brjósti, en hag landsins. En þessu er alls ekki þannig varið. Nefndin álítur, að það sje að öllu leyti sanngjarnt, að bæjarfjelag Siglufjarðar fái keypt bæjarstæðið, ekki síst, þar sem aðrir kaupstaðir landsins eiga sínar lóðir. Það er heldur ekki líklegt, að lóðirnar siglfirsku muni hækka í verði. Þær eru flestar leigðar fyrir ákveðið gjald, til 50 ára eða lengur, og því ekki von um tekjuauka af þeim fyrst um sinn. Mjer er og kunnugt um, að menn þar hafa sagt upp lóðum, er þeir hafa fengið, svo fjárhagslegu horfurnar í þessu efni eru lengt frá því að vera glæsilegar.

Meiri hl. nefndarinnar hefir leyft sjer að koma fram með smábreytingar og viðauka við frv., og er það í samræmi við þær umr., er urðu um málið við 1. umr. Það er þá fyrst smávægileg breyting, að í staðinn fyrir „haglendi“, komi „hagbeit“. Er þetta sett til þess að fyrirbyggja þann skilning, sem kom fram hjer við 1. umr., að hjer gæti verið um sjerstakt landssvæði að ræða. Slíkt var aldrei meiningin með frv., heldur hitt, að presturinn fengi að nota landið til beitar.

Þá hefir meiri hl. leyft sjer að bæta við frv. öryggisráðstöfunum í þá átt, að ekki yrðu seldar einstökum mönnum lóðir á Siglufirði. Það var drepið á það hjer við umr., að ef Siglufjarðareyri væri seld, þá mundu ef til vill einstakir menn, og þá helst útlendingar, ná yfirráðum yfir bestu lóðunum. Það var að vísu alls ekki meiningin með frv. að stofna til þess, en nefndin leyfði sjer að koma með þennan viðauka til þess að slá varnagla við, að slíkt kæmi fyrir.

Sumir hv. þm. kunna nú að líta svo á, að þessi ákvæði sjeu of ströng, og hefðu ef til vill fremur kosið að selja mætti innlendum mönnum lóðirnar með erfðafestu. En nefndin sá sjer ekki fært að leggja það til. En ef einhverjum sýndist að koma fram með brtt. í þá átt við 3. umr., þá mun nefndin að líkindum fallast á þær.

Jeg held, að það sje óþarfi að fara frekar út í málið. Hv. þm. er það svo ljóst, að jeg held, að langar umr. um það hafi ekki mikla þýðingu, heldur verði aðeins til þess að tefja þingið.