28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Þá er sagt í nál., að allir kaupstaðir landsins hafi fengið keypt það land, sem þeir standa á. Það er satt, að svo mun þetta vera um flesta kaupstaðina, en ekki alla þó. T. d. má nefna Vestmannaeyjar; kaupstaðurinn þar á ekki lóðina, sem hann stendur á, heldur ríkissjóður, og hefi jeg ekki heyrt neinn fara fram á, að hann fengi hana keypta. (St St:

Það er ekki kaupstaður). Jú, víst er það kaupstaður. Jeg er hissa á, að hv. frsm. (St. St.) skuli ekki vita það, þar sem lög um það voru samþ. á þinginu 1918.

En þó svona langt hafi verið gengið áður, þá getur verið álitamál, hvort rjett sje að renna skeiðið til enda. Og það því fremur, sem gera má ráð fyrir, að tala kauptúna, sem kaupstaðarrjettindi fá, aukist smátt og smátt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið meira út í þetta. Hv. frsm. meiri hl. (St. St.) talaði um það, að það væri glæsilegt fyrir landið að losa sig við Siglufjörð. Var naumast hægt að skilja orð hans og ummæli á annan veg en þann, að það væri hið mesta óráð fyrir Siglfirðinga að kaupa kaupstaðarlóðina eins og nú stendur. Hins vegar hefi jeg heyrt áður hjer á þinginu svo glæsilegar lýsingar á þeirri framtíð, sem Siglufjörður eigi fyrir sjer, einmitt af vörum háttv. frsm. (St. St.) sjálfs, að jeg tel engan vafa á því, að verðmæti lóðanna muni frekar vaxa en rjena. Svo má geta þess, að hagur landsins af að eiga kaupstaðarlóðina getur ekki komið í bága við hag Siglufjarðar. Það má treysta því, að samvinna þessara tveggja aðilja verði svo góð, að það geti alls ekki staðið kaupstaðnum nokkuð fyrir þrifum, þó landið eigi lóðirnar.