28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Hv. frsm. minni hl. (P. O.) hefir mikla trú á því, að Siglufjörður muni eiga glæsilega framtíð. Ekki vil jeg neita því, að jeg vildi ekkert fremur en að honum yxi fiskur um hrygg, og óska honum yfirleitt alls velfarnaðar. En jeg benti á það, sem hann hefir ekki tekið til greina, að lóðirnar eru flestar bundnar við leigusamninga, suma um óákveðna framtíð og aðra um fasta leigu í 50 ár eða meira. Þetta er hin fjárhagslega hlið málsins, sú, að hvað glæsilega framtíð sem Siglufjörður kann að eiga fyrir sjer, þá fær ríkið engan gróða af því að eiga kaupstaðarlóðina vegna þess, hvernig hún er að mestu samningum bundin.

Hvernig Siglufjörður verður eftir 50 ár, getur vist hvorugur okkar sagt mikið um. Og þess vegna er líka erfitt að sýna, að ríkið geri sjer tjón með því að selja eftir mati dómkvaddra, óvilhallra manna.

Hv. frsm. minni hl. (P. O.) lagði mikið upp úr því, að ekkert ynnist fyrir kaupstaðinn, þótt hann fengi lóðina keypta. Hann mun þó játa, að ábúendum er kærara að eiga jarðir þær, sem þeir þurfa að leggja í kostnað við. En þá er það ekki síður skiljanlegt, að Siglfirðingar vilji eiga land það, sem þeir byggja á og þurfa að leggja í kostnað við, t. d. hafnargerðina, sem áætluð var 200 þús. kr. fyrir stríðið. Heldur hv. frsm. (P. O.), að hann væri ekki fúsari að leggja í slíkan kostnað, ef hann ætti jörðina sjálfur, heldur en ef hann hefði hana á leigu, jafnvel þó erfðafesta væri? Það hefir verið svo, og mun vera svo áfram, að mönnum sje ljúfara að leggja á sig fyrir eignina heldur en leiguhlutinn.

Jeg hygg, að það sje rjett, að sá sem á lóð, sje ekki skyldur til að leigja hverjum sem er lóðina til hvaða afnota sem vera skal, heldur aðeins þeim, sem ætla að reka verslun eða sjávarútveg.

Jeg vissi ekki, hvernig hv. frsm. minni hl. (P. O.) meinti það, þegar hann sagði, að ef ríkissjóður seldi kaupstaðarlóðina, þá þyrfti hann að leggja fram tiltölulegt fje til varnargarðsins. (P. O.: Jeg sagði, að þeir myndu alt að einu sækja um styrk). Já, en þingið getur neitað um þann styrk. En meðan ríkissjóður á Siglufjarðareyri getur þingið ekki neitað að leggja fram fje til varnargarðsins, því eyrin liggur undir skemdum af völdum sjávarins, svo að ef ríkið vildi ekki láta eign sína eyðast, þá yrði það að taka þátt í varnarkostnaðinum.

Þá mintist hv. frsm. minni hl. (P. O.) á það, að fleiri kauptún myndu sigla í kjölfar Siglufjarðar ef salan gengi fram. Það má vel vera. En jeg verð að segja það, að ef rjett er farið í sakirnar, þá sje jeg ekkert á móti því, að þeim verði veitt það sama og hjer er farið fram á að veita Siglufirði.

Það var alls ekki tilgangur minn að gylla það neitt fyrir þingheimi, hvaða gróði væri fyrir ríkið af sölunni. Hitt vildi jeg aðeins sýna, hvernig málinu viki við fjárhagslega, eins og nú stæði. Jeg tel ekki mikið lagt í sölurnar til þess að gera þetta land byggilegt í framtíðinni, þó ríkið selji Siglufirði það, því ríkið fær ekki einn eyri í tekjur af því, meðan prestsins nýtur við. (B. J.: Ef selt er, missir presturinn tekjurnar). Nei, þeim er ekki hægt að svifta hann.

Jeg ætla annars ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en læt hv. deild ráða úrslitum þess.