28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Það verða aðeins örfá orð. Hv. frsm. meiri hl. (St. St.) sagði, að lóðirnar væru flestar leigðar um óákveðinn tíma eða 50 ár, og gætu tekjur ríkissjóðs af lóðum því ekki aukist á þeim tíma, sem leigusamningarnir taka yfir. En þó þetta sje nú svona með lóðarsamningana, og þeir engan veginn haganlegir fyrir ríkissjóð, þá verður að gæta þess, að við getum ekki rígbundið okkur við nokkra tugi ára, þegar við skygnust inn í það, sem framtíðin ber í skauti sínu, og verðum við að hafa opin augun fyrir því, þegar um er að ræða fjárhagslegar afleiðingar af sölunni á kaupstaðarlóðunum á Siglufirði.

Eins geri jeg ráð fyrir því, eins og jeg hefi tekið fram áður, að svo gott samkomulag verði milli ríkisstjórnarinnar og Siglufjarðarbúa, að það, að ríkið eigi lóðirnar, standi ekki hið minsta í vegi fyrir framförum og þroska hins unga kaupstaðar. Siglfirðingar geta alveg eins fengið. styrk til þess að gera hafnarbætur, þó ríkið sje eigandi kaupstaðarlóðarinnar. Sama er að segja um varnargarðinn. Jeg er viss um, að það yrði fyllilega litið á rjettmæti og þörf fjárframlags úr ríkissjóði til slíkra fyrirtækja, hvaðan sem beiðni kemur fram um slíkt, eftir því sem kringumstæður leyfa. Jeg veit, að hv. 1. þm. Eyf. (St St.) efast manna síst um það, að styrks muni verða leitað til þess, enda eru mörg dæmi þess, að slík fyrirtæki hafa verið styrkt af ríkinu.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (St. St.), að tekjurnar af lóðunum gengju allar til prestsins. En það kemur í sama stað niður. Ríkið notar þær til þess að greiða prestinum það, sem það annars þyrfti að greiða honum með öðru.