10.05.1921
Efri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (3244)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Þetta frv. var flutt í hv. Nd. af hv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Tók frv. þeim breytingum í þeirri hv. deild, að kaupstaðarlóðin skyldi undanskilin sölunni. Þó hafði meiri hl. allshn. lagt til, að frv. yrði samþ. óbreytt, enda hafði það fengið meðmæli bæði ríkisstjórnar og kirkjustjórnar. Allshn. þessarar deildar hefir komist að sömu niðurstöðu og meiri hluti allshn. Nd., að engin ástæða sje til að undanskilja kaupstaðarlóðina, heldur sje sanngjarnt og í samræmi við það, er áður hefir viðgengist, að hún sje með í sölunni. Þess vegna hefir nefndin gert brtt. í þá átt á þskj. 535, og leggur til, að deildin samþ. frv. með þeirri breytingu.