25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (3261)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Flm. (Jakob Möller):

Það eru nú liðnir 2 mánuðir síðan peningamálanefndin var skipuð og er þetta fyrsta hljóðið, sem heyrist frá nefndinni. Finst mjer rjett að gera með örfáum orðum grein fyrir starfi nefndarinnar. Í nefndina voru skipaðir 5 menn úr hvorri deild og gengu þessir menn saman að störfum og unnu í samvinnunefnd.

Það er nú kunnugt, að flestir þm. eru svo hlaðnir störfum í föstu nefndunum, að mjög lítill tími er afgangs til þess að starfa í lausu nefndunum. Var alalstarfstími nefndar þessarar milli kl. 4–5, og er öllum auðsætt, að sá tími er ekki hentugur, því að þá eru menn þreyttir eftir fundarsetuna og hafa þörf á því að hressa sig upp.

Starfinu var líka svo varið, að ýmsar uppástungur þurfti að fá víðsvegar að og tók það mikinn tíma; einnig kom verkefni handa nefndinni annarsstaðar að en frá þinginu, og var það togaramálið. Er það enn til athugunar hjá undirnefnd, og mun bráðum koma til þingsins kasta. Tók mál þetta mjög upp tíma nefndarinnar.

Aðalverkefni nefndarinnar var að rannsaka orsakir fjárkreppunnar og hvernig mætti greiða úr henni. Um þetta liggja engar beinar till. frá nefndinni enn. En ef nál. meiri hl. samvinnunefndar geta menn þó sjeð, að nefndin hefir komist að ákveðinni niðurstöðu, því að enda þótt nokkur ágreiningur sje um skipulagið á seðlaútgáfunni, þá eru allir sammála um, að nauðsyn reki til að taka lán og að ekki sje hægt að greiða úr fjárkreppunni með öðru móti. Má sannfærast um þetta með því að bera öll framkomin skjöl nefndarinnar saman. Að vísu eru reyndar 2 af nefndarmönnunum að minsta kosti ekki opinberlega riðnir við skjöl þessi, en þeir munu þó vera sammála um þetta.

Stjórnin hafði engar till. fram að bera í þingbyrjun, til þess að greiða úr fjárkreppunni, nema þær, sem földust í frv. því, sem nú er tekið út af dagskrá, um seðlaútgáfurjett o. fl., og líklega er óhætt að segja um, að sje sofnað til sinna feðra. Stjórnin ljet fylgja frv. þau ummæli, að ef sú skipun, sem þar er farið fram á, yrði upptekin, þá mundi það nægja til að bæta úr fjárkreppunni. En nefndin sannfærðist fljótt um það, eins og tekið er fram í nál., að þessar vonir stjórnarinnar voru tálvonir.

En nefndin varð auðvitað að rannsaka það, á hverju þessar vonir stjórnarinnar væru bygðar, áður en hún gæti gert nokkrar tillögur um, hvernig mætti sem fljótast og best greiða úr fjárkreppunni, og mjer er óhætt að fullyrða, að slíkar tillögur hefðu komið fyr fram frá nefndinni, ef ekki hefði verið um þessar tálvonir stjórnarinnar að ræða. Jeg vil ekki segja, að þær hafi ekki haft við eitthvað að styðjast, þegar þær voru látnar í ljós upphaflega, en þegar kom fram á starfstíma nefndarinnar, kom það skýrt og greinilega í ljós, að þetta var ekki annað en tálvonir.

Þetta yfirlit yfir störf nefndarinnar verð jeg að láta nægja að sinni, enda ætlaði jeg mjer ekki að stofna til langra umræðna um peningamálin yfirleitt, og vildi sem mest forðast deilur um þau mál að svo stöddu. Það liggur ekki heldur beint fyrir að svo stöddu, hvað eigi að gera til að greiða úr fjárkreppunni. heldur er það, sem nú er hjer til umr., mjer liggur við að segja smávægilegt aukaatriði, það, hvernig skipa eigi seðlaútgáfunni, en það er þó þannig vaxið, að því verður að hraða.

Það verður einhvern veginn að skipa seðlaútgáfunni eftir 1. maí, því að þá er útrunninn leyfistími Íslandsbanka til að gefa út seðla umfram 2% miljón króna.

Til þess að fullnægja viðskiftaþörfinni þarf sjálfsagt einar 9–10 milj., að minsta kosti um hábjargræðistíman, ef ekki fer því ver. Svo mikið af seðlum verður að því að gefa út, og heimildina til þess verður að gefa formlega fyrir þann tíma.

Um þetta mál eru nú fram komin 3 frv. hjer á þinginu. Eru 2 þeirra hjer á dagskrá, en það þriðja er borið fram í háttv. Ed. og nokkrir nefndarmenn úr peningamálanefndinni riðnir við það. Það mun að vísu óvenjulegt, að frv. um sama mál sjeu borin fram samtímis í báðum deildum. Hefði verið miklu hentugra, að öll frv. hefðu komið fyrir þessa hv. deild samtímis, og satt að segja skil jeg ekki hvers vegna svona hefir verið farið að, þar sem málið upphaflega var lagt fyrir þessa deildina, og hv. flm. Ed.frv., að minsta kosti sumum þeirra, hlaut að vera það kunnugt, að málið hlyti að koma hjer til umr. þessa dagana. — Það er líkast því, að þeir hafi hugsað sjer einhvern kappleik milli deildanna í þessu máli, því að frv. þeirra átti að taka á dagskrá þegar í gær, eitthvað klukkustund eftir að því var útbýtt, og vafalaust áður en allir háttv. þingdeildarmenn höfðu haft tækifæri til að lesa það yfir. Jeg veit ekki, hvort þessi kappleikur er að nokkru leyti háður í þágu hæstv. stjórnar, en það getur hún vafalaust upplýst. En tilorðning þessa frv. bendir á, að hjer er leikur með í tafli, og að minsta kosti er heimildin vafasöm. ef það er borið fram á bak við höfundinn og algerlega í óleyfi hans.

En þó að þetta frv. liggi þannig ekki fyrir til umræðu í þessari hv. deild, þá held jeg þó, að ekki verði hjá því komist að ræða það hjer jafnframt hinum frv., því að það er ljóst, að hjer er um tvær leiðir að ræða, og verður ekki komist hjá því að bera þær saman, ef úr því á að skera, hvora velja skuli.

Og það vill nú svo vel til, að það eru svo greinileg ættarmót með þessu frv., er framkomið er í Ed., og hæstv. stjórnar, að um þau bæði er hægt að tala svo að segja í sama andartaki.

Það er sameiginlegt með báðum þessum frv., að til þess að þau geti í raun og veru fengið lagagildi, þarf meira en samþykt Alþingis og staðfestingu konungs — til þess þarf líka samþykt aðalfundar Íslandsbanka. Það liggur í augum uppi, að það samþykki ætti heldur að fá áður en lögin eru sett, til að tryggja það, að þau yrðu ekki gagnslaus. — Það skal þó játað, að eins og stj.frv. lá fyrir, hefði vel átt að geta komið til mála að samþykkja það, þó að í þessari óvissu væri, í þeim tilgangi að tryggja Landsbankanum útgáfurjettinn að 3 milj. kr. í seðlum þegar í stað og með það fyrir augum að ná allri seðlaútgáfunni síðar úr höndum Íslandsbanka smátt og smátt. Það frv. er jafnframt að nokkru leyti frv. til samnings við bankann, sem koma átti til framkvæmda þegar í stað, og bankinn orðið að ganga að eða frá straks.

En eins og tekið er fram í áliti meiri hl. samvinnunefndarinnar, þá var undir eins sá hængur við 1. gr. frv., að nefndin gat ekki sjeð neinar líkur til þess, að það ákvæði hennar, að Landsbankinn skuli taka við þriggja miljóna seðlaútgáfu, gæti komið til framkvæmda. En að því ákvæði sleptu virtist samningsgildi frv. vera fallið úr sögunni, eða að minsta kosti óvíst, og eftir verður aðeins heimild til handa Íslandsbanka að gefa út seðla eftir þörfum — fyrst um sinn til 31. mars 1923, en síðan kæmi til kasta Íslandsbanka að segja af eða á um afhending seðlaútgáfunnar.

Sama er að segja um frv. á þskj. 379, sem fram er borið í hv. Ed. Það er í raun og veru ekkert annað en stj.-frv. afhausað. Höfuðið — þessar 3 milj. Landsbankans — sniðið af, en ákvæði þess auðvitað aðeins bindandi fyrir löggjafarvaldið, en ekki fyrir Íslandsb. að öðru leyti en því, sem „honum gott þykir.“ Hann getur hafnað því, sem honum er ógeðfelt, en þó notað þann rjett, sem honum er gefinn til ótakmarkaðrar seðlaútgáfu til ársloka 1924.

Mjer skilst nú, að óþarft sje að ræða stj.frv. frekar. Hæstv. stjórn mun ætla að taka að sjer þetta nýja frv. — Það er þá líka óþarft að ræða frekar en gert er í nál. um þann ágreining, sem var milli bankanna um stj.frv. En, eins og þar er sagt, þá var sá ágreiningur þannig vaxinn, að þegar af þeirri ástæðu gat meiri hl. nefndarinnar ekki mælt með frv.

Og jeg hefi meira að segja ástæðu til að ætla, að einhver ágreiningur hafi verið milli hæstv. ráðherra um frv. eða mismunandi skilningur á einstökum ákvæðum þess — og það í aðalatriðum.

Um afstöðu Íslandsbanka verður ekkert fullyrt. Jafnvel þó að einn bankastjóri bankans hefði nú getað fallist á frv. í öllum atriðum og það sá bankastjórinn, sem farið hefir með umboð meginþorra hluthafanna á aðalfundum bankans, þá gat nú hugsast, að einhver annar fengi umboðið nú. Hluthafarnir hafa alveg óbundnar hendur um það, og þess vegna er það ekki mikið til að byggja á, þó að fult samkomulag hefði nú náðst um frv. við þennan bankastjóra. Auk þess var frv. ekki eins skýrt og þurft hefði að vera.

En nú, þegar athuga á hitt frv., sem borið er fram í Ed., þá verður að líta á það, hver aðaltilgangur hvers frv. um sig er.

Fyrir hæstv. stjórn vakti það tvent, að greiða úr fjárkreppunni með því að skipa endanlega seðlaútgáfu Íslandsbanka, og að ná seðlaútgáfunni sem fyrst úr höndum þessarar erlendu stofnunar, sem nú að vísu er undir yfirstjórn hæstv. stjórnar sjálfrar. — Það sje fjarri mjer að lasta þennan tilgang.

En nú hefir öll peningamálanefndin og allir þessir 8 hv. þingm. í Ed., og líklega öll hæstv. stjórn, komist að þeirri niðurstöðu, að með þessu verði ekki greitt úr fjárkreppunni, og til þess að það verði gert verði ríkissjóður að leggja bankanum til fje, og hv. flm. Ed. frumvarpsins vilja fyrst og fremst koma bankanum undir innlend yfirráð. En þá er líka tilgangur stjórnarfrv. kominn „út í veður og vind“.

Ef ríkissjóður verður að hlaupa undir bagga með bankanum til þess að losa hann úr kreppunni, þá þarf ekki til þess neina endanlega skipun seðlaútgáfunnar, og ef það verður gert á þann hátt, að ríkissjóður verði aðaleigandi bankans, með því að auka hlutafje hans, þá þarf ekki að gera neina sjerstaka samninga um afhending seðlaútgáfurjettarins í hendur ríkisins, þar sem Alþingi hefir þá eftirleiðis vald yfir bankanum.

Hvað er þá unnið með þessari endanlegu skipun seðlaútgáfurjettarins samkvæmt frv. á þskj. 379? — Ekkert. — Hún er þá alveg tilgangslaus. Nema sem framlenging á aukaseðlaútgáfurjetti Íslandsbanka.

Í 1. gr. frv. er ákveðið, að Íslandsbanki skuli fara með alla seðlaútgáfu í ríkinu til 31. des. 1924. Það er gert með öllu skilyrðislaust að öðru leyti en því, að bankanum er gert að skyldu að málmtryggja seðlana samkvæmt lögum nr. 66,10. nóv. 1905, og greiða vexti í ríkissjóð, eins og sagt er í 4. gr. frv.

Engin önnur skilyrði eru sett fyrir veiting seðlaútgáfurjettarins. Sá rjettur er ekki bundinn því skilyrði, að bankinn dragi inn alla seðla sína á tímabilinu frá 1. jan. 1925 til enda leyfistímans, eins og í 2. gr. segir, eða því, að bankinn selji ríkissjóði gullforða sinn samkv. 3. gr., eða auki hlutafje sitt samkv. 5. gr. Jú, að eins eitt skilyrði er sett, það er „kritiska revisionin“. Það er beinlínis tekið fram í 6. gr., að bankinn skuli háður þeirri revision meðan hann hefir „auka“-seðlaútgáfuna á hendi. Jeg hygg, að bankinn mundi verða bundinn við að leyfa hana, en um árangurinn af henni, eða um skyldu bankans til að hlíta henni, er ekkert ákveðið og fer eftir bendingum „revisoranna“.

Það lítur út fyrir það, að hv. flm. hafi ekki gert sjer það nægilega ljóst, að með slíkri lagasetningu er ekki hægt að skylda bankann til að gera hvað sem er. Með lögum er hægt að auka rjettindi bankans, eins og gert er í 1. gr., en það er ekki hægt að svifta hann neinum rjettindum og heldur ekki að leggja á hann neinar kvaðir, nema með samþykki hans. — það er auðvitað, að bankinn fær ekki þann rjett, sem í 1. gr. segir, nema hann uppfylli þau skilyrði, sem fyrir þeim eru sett, en það eru að eins seðlatryggingarskilyrðin, sem eru miklu vægari en nú eru þau, vaxta skilyrðin og endurskoðunin. Hlutafjáraukningin er ekki sett sem skilyrði. — Jeg er nú hræddur um, að þetta sje ekki öllum hv. flm. ljóst, þó að hinum ágæta lögfræðingi, sem er einn meðal þeirra, sje það auðvitað fullljóst. Með öðrum orðum: með þessu frv. er seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka framlengdur til ársloka 1924, og það þó alls ekki trygt, að hann færi þá að afhenda rjettinn í hendur ríkisins, þó að svo færi, að ekkert yrði úr hlutakaupum ríkissjóðs, þá er og rjett að benda á það, að þetta frv. fer að því leyti lengra en stjórnarfrv., sem aðeins vildi framlengja rjettinn til 31. mars 1923, en þetta til ársloka 1924.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort meiri hluti peningamálanefndarinnar hefði getað fallist á þetta, ef það hefði unnist við það, að bankinn hefði getað komist úr kreppunni hjálparlaust. En nú er ekki um það að ræða. Þess vegna hefir þessi hluti nefndarinnar ekki getað fallist á það, að nein þörf sje á því, að skipa seðlaútgáfunni endanlega eða til svo langs tíma að svo stöddu. Og því er ekki að leyna, að það er mjög fjarri skapi sumra nefndarmanna að sleppa þannig tökunum á seðlaútgáfunni á næstu árum, eins og til er stofnað með þessari endanlegu lausn málsins, meðan ekki er full vissa fengin fyrir því, að bankanum verði komið undir innlend yfirráð.

Það er óhætt að fullyrða, að það sje eindreginn vilji nefndarmanna, að bankanum verði komið undir innlend yfirráð. Þess vegna fara allar tillögur í þá átt, að ríkissjóður hlaupi undir bagga með bankanum með því að auka hlutafjeð, þannig að heimila ríkissjóði að kaupa hlutabrjef í bankanum. Og jeg skal taka það fram, að þessi tillaga er einmitt komin frá þeim hluta nefndarinnar, sem að frv. á þskj. 385 stendur, þó að hv. flutningsmenn frv. á þskj. 379 hafi tekið hana að sjer og sett ákvæði þar um í frv.

En það stoðar lítið að setja í lög, að það skuli gert, eins og gert er í því frv., meðan það er ósamþykt af bankanum. Og það virðist líka vera óráðlegt að setja það sem skilyrði fyrir seðlaútgáfuframlengingunni, t. d. með því að orða 1. gr. eitthvað á þessa leið: Ef samningar takast um hlutakaup ríkissjóðs o. s. frv., því að þá gæti farið svo, ef bankinn ekki gengi að því, að seðlaútgáfan stöðvaðist, eða þá að stjórnin yrði að gefa út bráðabirgðalög og heimila bankanum áframhaldandi seðlaútgáfu, þó að hann aftæki með öllu samningana.

En það, sem hv. þm. verða að athuga, er það, hvort þeir vilja þá ganga að frv. á þskj. 379, líka með það fyrir augum, að ekkert verði úr hlutakaupunum. — Jeg býst að vísu við því, að ekki þurfi að óttast, að til þess komi, að hlutafjáraukn. verði neitað. En það er engin vissa fyrir því, að það verði ekki gert. Þess vegna hefir meiri hluti nefndarinnar ekki getað fallist á að leggja það til, að framlengingin yrði veitt um lengri tíma en eitt ár að svo stöddu, en meðfram þó með það fyrir augum, að óþarft yrði að skipa afhending seðlaútgáfurjettarins eins og frv. gerir ráð fyrir, ef úr hlutakaupunum yrði, og að þá bæri að athuga miklu vandlegar en enn hefir verið gert, hvernig haga skuli seðlaútgáfu í ríkinu framvegis. En þar gæti þá þrent komið til mála: að láta Íslandsbanka fara með seðlaútgáfuna áfram, að afhenda Landsbankanum seðlaútgáfurjettinn, eða að stofna alveg sjerstakan seðlabanka,

Ef borin eru saman frv. á þskj. 379 og 385, sem við hv. þm. Mýra. flytjum fyrir hönd nokkurs hluta peningamálanefndar, þá sjá menn það, að munurinn á framlengingar skilyrðunum er ekki mikill. Það má sem sje heita, að nefndin öll sje sammála um þau. Aðalmunurinn er þessi, að eftir frv. á þskj. 379 er rjetturinn framlengdur til ársloka 1924, en eftir hinu að eins til árs. Þá hefir skipun stjórnarfrv. um afhendinguna verið tekin upp í frv. á þskj. 379, en við, sem að hinu frv. stöndum, teljum það óþarft að svo stöddu og ótímabært. — Þá er svo skipað fyrir í frv. á þskj. 379, að hlutafje bankans skuli aukið sem þar segir, og er það þó ekki sett sem skilyrði fyrir seðlaútgáfurjettinum að neinu leyti. Við, sem að hinu stöndum, álítum slíkt ákvæði, þannig orðað, á misskilningi bygt, vegna þess, að það er ekki á valdi löggjafarinnar að ákveða neitt um þetta. En við höfum ákveðið að bera fram frv. um heimild fyrir stjórnina til að taka lán í þessu skyni og til að gera ráðstafanir til að koma því í framkvæmd.

Það er því í fáum orðum tillaga meiri hluta nefndarinnar, að horfið verði frá grundvelli stjórnarfrv. að sinni, af því fyrst og fremst að gera beri gangskör að því að ná yfirráðunum yfir Íslandsbanka í hendur ríkisins, og því sje ótímabært að taka ákvarðanir um skipun seðlaútg. í framtíðinni. Hins vegar beri að framlengja seðlaútgáfurjett bankans til eins árs, en innan þess tíma verður væntanlega sjeð fyrir endann á samningunum um hlutakaupin. Ef þeir samningar takast ekki, verður aftur að taka til yfirvegunar skipun seðlaútgáfunnar framvegis, og þá að undirbúa það mál betur en hæstv. stjórn hefir tekist að þessu sinni, svo að þingið, þegar þar að kemur, geti vitað, hvað að samning- um geti orðið. T. d. væri hugsanlegt, að hluthafafundur fæli einhverjum manni eða mönnum umboð til að semja um það við þingið. — En þó að þessu máli sje frestað nú, þá verður ekki sjeð, að neinu sje spilt.