27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (3266)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg verð að taka hjer stuttlega til máls, þar sem hvorki jeg nje annar peningamálanefndarmaður höfum getað orðið flm. að frv. því, sem nefndin annars hefir borið fram, og það aðallega vegna meðferðar nefndarinnar á þessum málum.

Eins og hv. frsm. (Jak. M.) tók fram í gær eru allir nefndarmenn í rauninni sammála um það, að ekki verði hjá því komist að styrkja Íslandsbanka að einhverju leyti með hjálp ríkisins. En það sem okkur greinir á um, eru leiðirnar. Sumir vilja láta framlengja núverandi ástand um eitt ár, en aðrir vilja láta binda enda á mál þessi í heild sinni nú þegar. Jeg fyrir mitt leyti hefi altaf verið fremur hræddur við það að skjóta máli þessu á frest. Því þar sem allir virðast sammála um það, að ríkið verði á einhvern hátt að hlaupa undir baggann, virðist mjer eðlilegast, að um leið verði gert út um yfirráðarjett ríkisins yfir bankanum. En hins vegar er jeg hræddur um það, að frestur á málinu gæti orðið til þess, að enginn endir verði bundinn á það atriði, nú frekar en áður; jafnskjótt og bankinn hafi fengið hjálpina, láti hann sjer það nægja, og frekari samningar dragist úr hömlu. En þar sem bankinn sjálfur hefir nú viðurkent það, að hann geti ekki starfað án hjálpar ríkisins, sýnist mjer sjálfsagt að setja þá hjálp í samband við yfirráð ríkisins yfir bankanum. Þess vegna finst mjer frv. á þskj. 385 alveg ófullnægjandi, og geti jafnvel orðið til hins verra. Því þó stjórnin setti „kritiska revision“, er ekki á slíku byggjandi eingöngu — bankinn getur að miklu leyti farið sínu fram eftir sem áður. Og þegar búið er að binda ríkissjóð við bankann fjárhagslega, er ekki eins áreiðanlegt, að bankinn yrði jafngóður í samningum, eins og ef hvorttveggja færi fram í senn, samningarnir um yfirráðin og hjálpin. En yfirleitt getur engin skynsamleg ástæða verið til þess fyrir erlenda hluthafa að amast við því, að ríkið fái yfirráð bankans. Það væri þá helst, ef einhver einstakur maður eða menn vildu ekki sleppa þeim yfirráðum yfir fjármálum landsins, sem þeir kynnu að geta haft með yfirráðum Íslandsbanka. En því meiri ástæða væri þá til að semja um hvorttveggja í senn, til þess að fá ákveðið úr því skorið, hvort þessi maður eða menn, ef nokkrir eru, vilja sleppa þessum yfirráðum eða ekki, svo hægt verði að haga sjer samkvæmt því. En. aðrir hluthafar alment hljóta sem sagt að verða ánægðir með yfirráð ríkisins. Þau hlytu að styrkja bankann og lánstraust hans og tryggja það, að ekki verði óskynsamlega með hann farið.

Mjer finst því í rauninni, að flest hin atriðin, sem talað hefir verið um í sambandi við þetta mál, geti, eins og nú stendur, að mestu horfið fyrir þessu eina, að ríkið taki yfirráð bankans. (Jak. M.: Ef það er þá trygt). Já, það er einmitt það, sem jeg vil fá skorið úr. Og ef hluthafarnir vildu ekki ganga að samningum á þessum grundvelli nú, ættu menn að sjá hvar fiskur liggur undir steini, og haga sjer eftir því. En verði horfið að hinu ráðinu, að framlengja seðlarjett Íslandsbanka um eitt ár og gera ekkert frekara nú, nema veita bankanum lán eða ábyrgð ríkissjóðs, þá er góðu tækifæri til samninga slept, og óvíst að slíkt tækifæri bjóðist síðar.

Annað er það, að þingið verður að láta eitthvað í ljós um það, hvernig það hugsi sjer framtíðarskipulag bankans. Og við það þarf stjórnin að geta stuðst í samningum sínum, ef hún á að hafa einhverja vissu fyrir því að fá staðfesta á næsta þingi þá samninga er hún nú væntanlega á þessu sumri gerir við bankann.

Það mun því öllum ljóst, að þetta er hið mesta vandamál og verður sannarlega ekki minna vandamál, þó því sje skotið á frest. En aðalatriðið fyrir mjer er það, að jeg teldi það tæpast forsvaranlegt, að ríkið hlypi undir bagga með margra miljóna láni, án þess að um leið yrði endi bundinn á framtíðarafstöðu ríkisins til bankans, að því er seðlaútgáfurjett bankans snertir.