27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (3272)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Jón Þorláksson:

Jeg ætla ekki að fara langt út í frv., sem ekki er hjer til umr., en mönnum hefir þó orðið skrafdrjúgt um.

Það frv., sem hjer liggur fyrir, fer fram á að framlengja seðlaútgáfurjett Íslandsbanka um eitt ár. En í frv. sjálfu er ekkert um það, hvað skuli taka við á eftir. í ræðum manna hefi jeg heldur ekki orðið var við neina bendingu um það efni. En það hefði ráðið miklu um mína afstöðu, ef jeg hefði vitað, hvað ætti að taka við, ef frv. yrði samþ.

Að því er til þessarar seðlaútgáfu kemur er í rauninni um 3 atriði að ræða. Fyrst er seðlaútgáfa Íslandsbanka, sem hann nú fer með. í frv. því, sem hjer er til umr., er henni skipað um tiltölulega mjög stuttan tíma, aðeins til 1. maí 1922. í átta manna frv. í hv. Ed. er henni skipað um heldur lengri tíma, til 31. des. 1924. Er þessi mismunur fremur smávægilegur í mínum augum.

Annað atriðið, sem er allmiklu stærra, er það, hvernig eigi að skipa seðlaútgáfu Íslandsbanka það sem eftir er leyfistíma hans. Fyrir þetta tímabil þarf bráðabirgðaskipun á seðlaútgáfu landsins og endanlega skipun á útgáfunni gagnvart Íslandsbanka á það, sem um fram er 21/2 milj. kr.

Þriðja atriðið er svo fullnaðar eða frambúðarskipulag á seðlaútgáfu landsins, eftir að útgáfurjettur Íslandsbanka er á enda.

Annað atriðið, eða skipun seðlaútgáfu Íslandsbanka það sem eftir er af leyfistíma hans, hefir sjerstaka þýðingu fyrir bankann og er nauðsynlegt til þess að bankinn geti notið nægilegs lánstrausts, það sem eftir er leyfistíma hans, og vík jeg að því síðar.

Af þeim 3 frv., sem komið hafa fram um þetta mál, er aðeins eitt, sem nokkuð snertir þriðja atriðið; það er stjórnarfrv. í því er gerð endanleg skipun á seðlaútgáfunni og gert ráð fyrir, að hún gangi smám saman yfir til Landsbankans og verði 1933 komin algerlega í hans hendur. Það getur verið, að það sje varhugavert að ganga svo langt á þessu þingi, þó jeg hafi talið það æskilegast, að svona máli sje ráðið til fullra lykta. En mjer skilst á hv. nefnd, að Landsbankinn treysti sjer ekki til að taka við seðlaútgáfunni eins og stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Ef svo er, þá get jeg verið sammála hv. nefnd um það, að við eigum að láta endanlega skipun fyrir framtíðina bíða. En í því liggur ekki, að eigi megi koma endanlegri skipun á seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, það sem eftir er af leyfistíma hans.

Háttv. flm. (Jak. M.) viðurkendi, að skipun þessa atriðis hefði þýðingu fyrir lánstraust bankans, með því að hann kannaðist við það, að slík skipun hefði má ske nægt ein út af fyrir sig á þeim tíma, er stjórnarfrv. var samið, til þess að tryggja bankanum svo mikið lánstraust, að hann gæti bjargast úr vandræðunum á eigin spýtur.

það er líka ljóst, að þetta atriði hefir mikla þýðingu fyrir lánstraust bankans. Ástandið er þetta. Íslandsbanka er leyft að gefa út seðla fyrir upphæð, sem nemur 21/2 milj. kr. Þetta er vitanlega langt fyrir neðan viðskiftaþörfina. Hann hefir svo tekist á hendur að gefa út meira af seðlum eða svo, að viðskiftaþörfinni ætti að vera fullnægt, en þessi ákvæði eru aðeins til bráðabirgða, og getur löggjafinn kipt að sjer hendinni hve nær sem verkast vill. Allir vita, að ef þessum ákvæðum er kipt burtu, eða þeim er breytt, án tillits til bankans, getur það haft óþyrmilegar afleiðingar á hag hans, og svo gæti farið, að þær yrðu honum lítt bærilegar. Það er ekki nema eðlilegt, að þessi óvissa rýri traust bankans, og sjerstaklega er það eðlilegt, þegar þess er gætt, að í landinu eru sterkir straumar gegn þessari stofnun, svo ekki sje kveðið frekar að orði. Þessi ástæða er mjer nóg til þess að greiða ekki atkv. með frv., sem aðeins fer fram á að framlengja rjettinn um eitt ár. Þegar jeg greiði atkv. gegn frv., er það ekki af því, að jeg vilji taka þennan rjett af bankanum, heldur af því, að jeg vil gera um hann endanlega skipun, það sem eftir er sjerleyfistímans.

Út af því, sem komið hefir fram í umr. í dag, vil jeg víkja lítilsháttar að ummælum hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann tók það upp úr blaðagrein í dag og gerði að sínum orðum, að Íslandsbanki væri aðeins útibú frá Privatbankanum, og á sama hátt mætti segja, að Landsbankinn væri útibú Landmandsbankans. Jeg er þakklátur hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) fyrir að hafa vísað ummælum þessum á bug, því að jeg verð að telja þau ósæmileg. Landsbankinn er hjer ekki til umr. og er því óþarfi að blanda honum í þetta mál. En að viðhafa þau ummæli um aðalseðlabanka landsins, að hann sje aðeins útibú banka í framandi landi, verð jeg að telja ósæmandi fulltrúa þjóðarinnar. Það bætir ekkert um, þó að þessi orð sjeu höfð eftir bankastjóra við Landsbankann; þau eru eins illa til valin fyrir það, og get jeg ekki trúað öðru en að þau sjeu rangt eftir honum höfð.