29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að jeg hefði haft skakt eftir sjer orð í ræðu hans í dag. Það getur verið, að jeg hafi misskilið hann; jeg skal ekki um það þrátta. En honum hefir þá orðið svipað á um það, er hann hafði eftir mjer. Hann sagði, að jeg hefði látið í ljós, að einu bjargráðin fyrir Íslandsbanka væri framtíðarráðstöfun seðlaútgáfunnar. En jeg sagði, að það væri fyrsta sporið og undirstöðuatriði, en ljet í ljós, að jeg byggist nú við að þurfa mundi önnur og meiri bjargráð. Þetta er jeg viss, að jeg sagði.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) svaraði ræðu minni að nokkru leyti og sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í það. En jeg hjó eftir einu í ræðu hans; hann ljet það í ljós, að hann áliti óráðlegt að hraða því að taka ákvörðun um bjargráð Íslandsbanka. Mjer þótti þetta alleinkennilegt hjá honum, því að hann hefir ekki farið svo smáum orðum um fjárkreppuna, og hve nauðsynlegt væri að bjargast úr henni, og kent Íslandsbanka um ástandið. Mjer finst það nærri undarlegt, eins mikið og um peningakreppuna hefir verið talað, ef mönnum finst ekki ástæða til að hraða því, að gerðar sjeu ráðstafanir til að komast úr henni. Jeg hjelt, að það hefði verið tilgangurinn með peningamálan. að reyna að finna þau ráð, er fljótast gætu bætt úr þessu ástandi. Jeg er ekki að finna að því, þótt nefndin hafi ekki fundið nægileg ráð, en hitt, að ekki þurfi að hraða því að finna þau, álít jeg fjarri sanni.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) talaði ekki mikið í minn garð nú, og læt jeg mjer nægja að skírskota til ræðu hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), því að hún er í samræmi við þá skoðun, er jeg hefi áður látið í ljós, og finst mjer óþarfi að vera að taka það upp aftur.

Hv. þm. (Jak. M.) sagði, að þetta tal um varanlega skipun seðlaútgáfunnar væri einungis skálkaskjól. En hver, sem vill athuga málið með sanngirni, getur gert sjer það ljóst, hverju það varðar bankann fyrir traust hans út á við, hvort hann hefir fastbundinn rjett til enda sjerleyfistímabilsins eða bráðabirgðaákvæði um seðlaútgáfuna, sem hægt er að kippa burt, þegar jafnvel verst gegnir, svo hann yrði að kalla inn seðla sína of hratt og á óeðlilegum tíma eftir geðþótta þingsins. Nei, það er ekkert ómerkilegt tal, þegar lögð er áhersla á þetta atriði. Það er eins hægt að segja, að þetta sífelda tal um bráðabirgðaráðstöfun seðlaútgáfunnar væri ómerkilegt tal. Þessi bráðabirgðaráðstöfun komst á að mig minnir fyrir 7 árum, 1914 eða 1915, og hún var ekki hugsuð sem bráðabirgðaráðstöfun, sem yrði endurtekin á hverju ári, heldur var gert ráð fyrir, að varanlegir samningar kæmust á bráðlega um þetta atriði. Þá stóð bankinn svo að vígi, að hann gat neitað að gefa út meira en þessa 21/2 milj., og það var ekki svo varhugavert fyrir hann, en hann vildi ekki beita því þá, þó viðbúið sje, að hann hefði gert það, ef búist hefði verið við sífeldum bráðabirgðaráðstöfunum í þessu efni svona lengi. Það hefði heldur ekki verið svo þægilegt fyrir landsmenn, ef bankinn hefði dregið inn seðla sína sem örast. Nú að minsta kosti mun öllum ljóst, að slíkt mundi ekki heppilegt. Hitt var það, að hve nær sem þetta varanlega skipulag kæmist á, mætti búast við einhverri tilslökun á einkarjetti bankans. Þetta kom fram á þinginu 1919, og stjórnin þykist hafa engu síður nú sjeð svo um í frv. því, er hún lagði fyrir þingið, því að það hefir í sjer fólgna stórmikla eftirgjöf á hindrunarrjetti bankans.

Sama hefir vakað fyrir flm.Ed.-frumvarpinu.