29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Eiríkur Einarsson:

Það gleður mig, að ummæli mín um Íslandsbanka hafa orðið til þess að vekja dálítinn óróa hjer í deildinni, því að sumir virðast þurfa vakningarinnar við. Jeg sagði frá þeim orðróm, sem mjer hafði borist til eyrna, að Íslandsbanki væri svo valtur, að um „lokun“ og slíka hluti væri að ræða, ef ekki gengi alt að óskum. Jeg geri ráð fyrir, að þessi orðrómur sje ekki alveg sannur, en hann sýnir álit manna á hag bankans og sýnir, hve brýna þörf ber til þess að hlaupa eitthvað undir bagga með þessari stofnun. Nú hafa hv. þm. lýst því yfir hver af öðrum, að þeir væru stofnuninni hlyntir, og væri vel, ef þeir sýndu það í verki, með varkárri aðhlynningu en ekki fljótfærni.

Jeg get ekki tekið ásökunum hæstv. forsrh. (J. M.) um, að jeg hafi farið með dylgjur um bankann. Jeg gat aðeins um orðróminn, og í þessari tíð er alt á völtum fótum, og eiga fyrirtæki því erfitt uppdráttar, þó ekki hafi þau eins ljelega fortíð sem Íslandsbanki. Það er áreiðanlegt, að hagur bankans er alt annað en glæsilegur, og getur hver og einn vottað það, og margir af eigin reynslu. Menn, sem ferðast erlendis, verða að láta Íslandsbankaseðla liggja óhreyfða í vasa sínum. Þeir eru einskis virði þar ytra. Kannske megi ekki segja frá þessu hjer heima?

Jeg hefi ekki talað ógætilega um Íslandsbanka, en jeg hefi heldur ekki viljað draga fjöður yfir neitt af því, sem máli skiftir. Alt pukur um stórmálin tel jeg þm. ósæmandi, er þau eru til umr. og skifta máli. Mjer er núið því um nasir, að jeg sje bankástjóri og því hlutdrægur í þessu máli, en jeg vil benda á það, að fyrst og fremst er jeg hjer sem þm., og bankastjórastaða mín ætti aðeins að gera mig varkárari. Og jeg þykist heldur ekki standa hjer til þess að bjarga Íslandsbanka, heldur til þess að leita bjargráða lyrir þjóðina.