29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (3284)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) talaði um, að ástand Íslandsbanka væri iskyggilegt. Slík ummæli má ekki viðhafa, nema bein ástæða sje til. Slík ummæli eru mjög ógætileg, og ættu helst ekki að heyrast hjer í deildinni. Það vita allir, að erfiðleikar hafa verið með yfirfærslur, en ekkert hefir komið fram, sem bendi til þess, að bankinn geti ekki goldið hverjum sitt.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) talaði um daginn mikið um það, að við fengjum lán frá Dönum, og taldi hann það óheppilegt. Hann hjelt því fram, að bankinn ætti þar nokkra sök að máli. Jeg tel ekki nema eðlilegt, að við fáum aðallega lán hjá Dönum, því að þar eru aðalviðskifti vor, og hefir slíkt ekki á sjer neinn bónleitablæ, eins og hv. þm. (Gunn. S.) vildi telja. Hann mintist á gjafakorn. Þessu verð jeg að mótmæla. Lán þau, sem við höfum fengið í Danmörku eru eins og hver önnur viðskifti, kaup og sala, og ekkert við því að segja. Þau eru bundin ákveðnum samningum og kemur því ekki til mála, að þau hafi áhrif á stjórnmálaviðskifti Íslands og Danmerkur. Meira þarf jeg ekki að taka fram að sinni.