29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (3285)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Jón Þorláksson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir tekið rangt eftir einu atriði úr ræðu minni. Jeg hjelt því ekki fram, að hægt væri að taka seðlaútgáfurjettinn alveg af Íslandsbanka, en þingið getur neitað að framlengja útgáfu aukaseðlanna, sem eru umfram 21/2 milj. kr., og þetta rýrir lánstraust bankans, Alþingi getur altaf dregið að sjer höndina, og sá möguleiki hlýtur að spilla fyrir bankanum. Menn geta ekki borið fult traust til hans, þegar löggjafarvaldið getur sett honum stólinn fyrir dyrnar hve nær sem vera vill á erfiðum tímum. Ef vel á að vera, verður að koma fram endanleg skipun á þessu, máli, til þess að bankinn og viðskiftavinir hans viti, hverju þeir geti gengið að. Jeg get því ekki talið frv. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) aðgengilegt eða fullnægjandi. Ef svo væri til ætlast, að landið eignaðist meiri hluta hlutafjárins, og bankinn síðan hjeldi öllum seðlaútgáfurjettinum, gæti jeg skilið þetta frv., því að þá stafaði bankanum ekki hætta af því, þó að endanleg skipun væri ekki gerð á seðlaútgáfunni. En þá er að athuga, hvort tiltækilegt sje, að það fari saman í einni stofnun að vera aðalseðlabanki landsins og auk þess verslunar- og viðskiftabanki, svo sem Íslandsbanki er, Jeg held, að reynslan hafi sýnt, að ekki fari vel á, að þetta falli undir eina stofnun, enda er seðlaútgáfa í öðrum löndum yfirleitt seld í hendur sjerstökum seðlabönkum, sem fást ekki við almenn, áhættumikil viðskifti. Jeg teldi því æskilegast, að Íslandsbanki skilaði af sjer seðlaútgáfunni smátt og smátt, eftir því sem fært þykir, og það er þetta, sem fram á er farið.