29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Flm. (Jakob Möller):

Mjer líkar vel, að hv. 3. þm. Reykv. gerir meiri kröfur til okkar, flm. þessa frv., en hinna 8, sem hafa borið fram frv. í Ed. Hann ætlast til, að við komum með till. um endanlegt fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. En jeg get því miður ekki fullnægt þeim háu kröfum. Það er satt, að frv. okkar nær aðeins til 1 árs, og er því bráðabirgðaráðstöfun, en hitt frv. er til 12 ára. En sá er gallinn á, að það fjallar aðeins um það, hvernig takmarka eigi seðlaútgáfurjett Íslandsbanka smátt og smátt, en ekki um hitt, hver eigi að taka við. Það er „in blanco“. Ef koma á endanlegri skipun á þessi mál, verður hún að vera fullkomnari en frv. þeirra 8. Og jeg verð að neita því, að nefndinni hafi borið skylda til að koma fram með till. um endanlegt fyrirkomulag. Nefndin hefir gert það sem henni bar. Til þess að gera till. um endanlega skipun seðlaútgáfunnar. telur nefndin þurfa að leita álits sjerfræðinga í öðrum löndum. Nefndin vill enga till. gera um það, hvort seðlaútgáfan skuli framvegis falin Íslandsbanka, Landsbankanum, eða nýjum sjerstökum seðlabanka.

Það er ekki hægt að svifta Íslandsbanka seðlaútgáfunni nema með samningi við hann. Þetta vona jeg, að mönnum skiljist, og þess vegna er þýðingarlaust fyrir Alþingi að setja lög um þetta efni fyrir þann tíma, sem eftir er af leyfistíma Íslandsbanka, nema vitanlegt sje, að bankinn gangi að þeim. — Ef bankinn brýtur af sjer, er vitanlega hægt að svifta hann rjettinum. Íslandsbanki hefir að vísu ekki lagaheimild til að gefa út meira en 21/2 milj. af seðlum, en í raun og veru verður hann að gefa út seðla eftir því, sem viðskiftaþörfin krefur. Við getum ekki verið gjaldmiðilslausir, og Íslandsbanki hefir einkarjett til þess að gefa út seðla. Það er því ekki hægt að setja bankanum hvaða skilyrði sem vera skal, og það er ekki framkvæmanlegt að taka af honum seðlaútgáfurjettinn. Ef svo væri litið á, að bankinn hefði þegar brotið af sjer rjettinn, væri þó að vísu nokkuð öðru máli að gegna. En jeg verð að líta svo á, að svo sje ekki, og þó svo væri, tel jeg vafasamt, að það borgi sig að fylgja því eftir. Hins vegar má benda á það, að Íslandsbanki telur vandræði sín nú mikið Seðlaútgáfunni að kenna, og má gera ráð fyrir því, að samningum megi ná við hann ekkert siður á næsta ári en nú. Það er alkunnugt, að bankastjórnin vildi gjarnan losna við seðlaútgáfuna 1919.

Um skeytið, sem hæstv. forsrh. (J. M.) talaði um, þarf jeg ekkert frekar að segja. Jeg hefi ekki sjeð skeytið, sem Tofte bankastjóri sendi, en hann sagði mjer sem nefndarmanni frá því, og sýndi mjer svarskeytið. Var mjer fyllilega ljóst af orðalagi skeytis Tofte, að það varð ekki skilið sem fyrirspurn um „memorandum“ Clausens bankastjóra, hvernig svo sem hæstv. forsrh. (J. M.) hefir ætlast til, að símað væri.