18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Jón Þorláksson:

Jeg vil ekki rengja það, að þörf sje á löggjöf um þetta efni, en mjer hefir komið til hugar. hvort hjer sjeu ekki fleiri ákvæði en rjett er. Jeg held, að mörg af þeim ákvæðum komist aldrei lengra en á pappírinn, og er leiðinlegt að búa til lög, sem engin von er um að framkvæmd verði. Jeg þekki ekki þetta mál svo, að jeg þori að dæma um það af sjálfs míns viti, en jeg sakna þess í upplýsingum stjórnarinnar og í nál., að fá vitneskju um hvort frv. hefir verið borið undir menn, sem bera verulegt skynbragð á verslunarhlið málsins. Jeg veit, að búnaðarfjelag Íslands hefir verið kvatt til, en það er mjer ekki næg trygging. Það fjelag þekkir þá hlið, er að kaupendum veit, en ekki er síður nauðsynlegt, að einhverjir hefðu verið til kvaddir af hálfu seljenda.

Jeg vil skjóta þeim spurningum til hv. frsm. (Þór. J.), hvort átt sje við öll kaup og sölu, þegar talað er um þá, sem versla með síld, eða hvort að eins sje átt við þá, sem reka verslun samkvæmt leyfi. Jeg hefi ekkert við efni greinarinnar að athuga, ef að eins er átt við þá, sem reka löggilda verslun, en ef það á að ná til allra, sem kunna að kaupa og selja þessa vöru, tel jeg það varhugavert. Það er kunnugt, að einstaka menn safna saman úrgangssíld um síldartímann og fylla steinolíuföt með henni og selja síðan. Jeg tel það óheppilegt, ef ákvæði 2. gr. og 4. gr. eiga að ná til þessa, og nú vil jeg forvitnast um, hvort svo sje eða ekki.