13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (3301)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Viðvíkjandi afstöðu minni til þessa frv. og Ed.frv. er það að segja, að jeg vildi, að þingið sneri sjer aðall. að öðruhvoru, vegna starfanna hjer og tímans, sem er naumur. Jeg hefi skotið þessu að hv. flm. (M. K.) og mælst til þess, að áhersla yrði fremur lögð á Ed.frv. vegna þess, að það hefir mikið fylgi þeirrar deildar og væri því líklegri samkomulagsgrundvöllur. Jeg hefi fengið neitandi svar, og við því er ekkert að segja. Jeg vildi reyna að spara tvær umr. í Ed., en það virðist ekki hægt úr þessu.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) spurði stjórnina, hvort hún hefði talað við bankastjóra Íslandsbanka um þetta frv. Það hefir stjórnin ekki gert, því að satt að segja bjóst jeg ekki við, að málið yrði tekið á dagskrá nú. Jeg hafði að vísu sjeð frv. hjá flm. áður en það fór í prentun, en við fórum ekkert nánara út í það mál.

Háttv. þm. (Jak. M.) hjelt, að hægt væri að skilja 1. gr. á tvo vegu, en ef hann lítur svo á það mál, þá er auðvelt fyrir hann að koma með brtt., sem geri greinina ótvíræða.

Þá spurði hv. þm. (Jak. M.), hvað stjórnin mundi gera 30. sept., ef frv. yrði samþ., en hluthafar Íslandsbanka vildu ekki ganga að því. Jeg lít eins á þetta og hann, að það er ekki annað fyrir hendi en að gefa út bráðabirgðalög.

Þetta frv. er að mörgu leyti líkt stj.- frv., og ræður að líkindum, að stjórnin sje ekki á móti þeim ákvæðum, sem þau frv. eiga sameiginleg. En það er ekki nóg, að menn telji einhverja skipun í þessu máli heppilega; það verða að vera líkindi fyrir því, að samkomulag náist um hana innan þings og við bankann, sem hlut á að máli.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) upplýsti það, að Landsbankinn væri frv. hlyntur. En hann hefir áður lýst því yfir við nefndina, að hann vildi ekki taka við seðlaútgáfunni. Ber að skilja þetta svo, að bankinn hafi aldrei lýst þessu yfir, það hafi verið misskilningur, eða hefir hann breytt skoðun? Það væri fróðlegt að vita.

Annars undrar mig það dálítið, að hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) skuli geta fallist á þetta frv. Hann hefir marglýst því yfir, að hann vilji enga frambúðarráðstöfun á seðlaútgáfunni, en hjer er farið fram á slíkt. En Ed.frv., sem þm. (Jak. M.) getur ekki fallist á, ákveður aðeins að taka seðlaútgáfuna af Íslandsbanka smátt og smátt, en lætur það alveg opið, hvað um hana verður. Það lítur svo út, sem þetta frv. ætti að falla hv. þm. (Jak. M.) vel í geð, og skil jeg ekki, hvers vegna svo er ekki.

Það er rjett hjá hv. þm. (Jak. M.), að það er verulegt atriði, hvernig bankarnir líta á þetta mál. Ní er komin yfirlýsing frá Landsbankanum, og hefi jeg ekki ástæðu til að rengja hana, en álit Íslandsbanka er ókunnugt, en það er hægt að fá það síðar. Jeg held þó, án þess að geta um það sagt með vissu, að bankanum sje betur við frv. Ed.; og þegar þess er gætt, að það var samþ. með öllum atkv. í Ed., er varhugavert að ganga alveg framhjá því. Jeg verð að telja það illa farið, ef samkomulag næst ekki í þessu máli, en um það er ómögulegt að segja fyr en afstaða Ed. til frv. kemur í ljós.