13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Eiríkur Einarsson:

Jeg tók svo eftir, að hæstv. fjrh. (M. G.) beindi þeirri spurningu til mín, hvort stjórn Landsbankans hefði snúist hugur um málið, þar sem hún væri hlynt þessu frv., en hafi ekki getað sætt sig við stj.frv.

Jeg geri ráð fyrir, að Landsbankastjórnin hafi alls ekki snúist. Það sem olli því, að hún gat ekki mælt með frv. stjórnarinnar, eins og því var komið að lokum, er nú á einn eða annan veg fært til leiðrjettingar í þessu frv. Má þar til nefna hina svo nefndu toppseðlaútgáfu, sem nú er tvímælalaust komið fyrir í þessu frv. Ennfremur þau ákvæði í þessu frv., er lúta að stjórn og skipulagi Landsbankans sjálfs í framtíðinni og gera má ráð fyrir, að stjórn hans telji mikilsvert atriði. Mörg önnur ákvæði eru í frv., er vel geta gert herslumun, svo að nú sje ástæða fyrir Landsbankastjórnina að vera því hlynt umfram stj.frv., þótt ekki vilji jeg fullyrða þar með, að bankastjórnin fallist á öll ákvæði þess.

Annars þykir mjer það næsta undarlegt, að hæstv. stjórn fyrir munn hæstv. fjrh. (M. G.) skuli beina þeirri spurningu út til manna á þingbekkjunum, hvaða skoðun Landsbankastjórnin hafi á þessu máli. Hví er hæstv. stjórn ekki í fullu samræmi við bankastjórnina um slíkt mál sem þetta? Þær eiga þó að vinna saman að því að sjá banka þjóðarinnar sem best borgið, og veitti þar síst af fullri samvinnu og einlægni.

Jeg vil aðeins drepa á það, er jeg sagði í fyrri ræðu minni, að það er óviðeigandi, að ræður manna snúist um það, að þetta mál verði að afgreiða á þann hátt, að þingið tefjist sem minst. Það á eingöngu að fara eftir efni frv., en ekki því, að annað frv. hefir náð samþ. Ed., og tæki ef til vill styttri tíma að umbreyta því. Þingmenn sjá, þegar búið er að slíta þingi og komið er heim til kjósendanna, að þá verður ekki spurt um, hvort Alþingi hafi staðið 1 eða 2 dögum lengur, heldur verður spurt um úrslit málanna, og svo dæmir þjóðin, hvort þau eru góð eða ill. Þetta mun ekki hvað síst sannast um bankamálin.

Jeg orðlengi svo ekki frekar um þetta mál, en skal þó benda á, auk þess sem jeg hefi áður getið um, að eitt af því, sem þetta frv. hefir fram yfir Ed.frv., eru öryggisráðstafanirnar, t. d. viðvíkjandi hlutafjáraukningunni, og það hlýtur þó hverjum að þykja miklu máli skifta. Tryggingin, þó í fljótu bragði sýnist góð, getur í reyndinni orðið gagnstæð, og verður ekki of vel um það búið.

Jeg mintist á það fyrir nokkrum dögum, að þá hefði jeg í merku norsku riti lesið grein, þar sem bent var á það, að stofnanir, þó sjóði ættu og sýndust tryggar í dag, gætu oltið um á morgun. Fjármál landsins væru á því hverfanda hveli, og því væri um að gera að fara varlega. Þetta hefir ekki verið sagt ófyrirsynju, eftir þeim fregnum sem borist hafa austan yfir hafið núna síðustu dagana. Þær segja, að 2 norskir bankar, sem álitnir voru stæltir, hafi farið um, og vel má vera að öðrum sje hætt.

þetta ætti að vera okkur umhugsunarefni, þegar við erum að leita að bjargráðum okkar fjármála vegna. Við eigum ekki umhugsunarlaust eða umhugsunarlítið að flaustra slíku af, heldur eigum við að kosta kapps um að tryggja alt sem best og búa um alla hnúta svo að ekki losni.