13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (3304)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Jón Þorláksson:

Þetta frv. er hjer til 2. umr. og því tilhlýðilegt að ræða einstök atriði þess, þó jeg hins vegar búist ekki við, að það verði til neinnar fullnustu.

Upp í þetta frv. eru tekin ýms ákvæði úr stj.frv., og verður þá fyrst fyrir mjer að minnast á það ákvæðið, er jeg taldi einna varhugaverðast í stj.frv., að auka fúlgu ógulltrygðra seðla úr 3/4 milj. upp í 3 miljónir. Jeg tel það mjög varhugavert að gripa til þess óyndisúrræðis, þegar landið hefir tapað nokkru af trausti sínu erlendis, að bæta þar á ofan því að auka ógulltrygða seðla í landinu. Önnur hlið á þessu ákvæði er sú, að mjer finst að valda muni óþægindum, að svo mikil seðlafúlga sje flutt í einu frá öðrum bankanum til hins. Velta annars bankans vex um 2% milj. en minkar að sama skapi hjá hinum. Þetta hlýtur að valda óþægindum fyrir viðskiftamenn bankanna, nema því aðeins að mjög góð samvinna sje á milli stjórna bankanna.

Þá er gætilegar farið í Ed.frv., þar sem gert er ráð fyrir, að seðlaútgáfa Íslandsbanka hverfi smátt og smátt með hverju ári.

Annað atriði, sem jeg hefi tilhneigingu til að leggja áherlsu á í þessu sambandi, er það, að svo verði frá gengið, að trygt sje, að seðlamergðin í landinu verði ekki of mikil. Takmörkun seðlamergðarinnar er skilyrði fyrir því, að okkar gjaldmiðill standi jafnfætis dönsku krónunni, en það er í mínum augum afaræskilegt, að svo geti verið. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinni takmörkun, svo að með því fæst engin trygging fyrir því, að seðlarnir verði ekki of margir.

Fyrir utan ákvæðið um seðlaútgáfuna er vitanlega annað aðalefni þessa frv., og það er um hjálp ríkisins Íslandsbanka til handa, svo að hann geti int af hendi skuldbingingar sínar og viðskiftamanna, gagnvart útlöndum.

Stj.frv. fór fram á að heimila Íslandsbanka sjálfum að auka hlutafje sitt, en taka af honum seðlaútgáfurjettinn. Ef það næði fram að ganga, myndi Íslandsbanki að loknum leyfistímanum standa sem öflugur einkabanki við hliðina á ríkisbankanum íslenska. Þetta áleit jeg og fleiri góða úrlausn málsins um það leyti sem stj.frv. var samið. En síðan hafa tímarnir breyst svo, að þessi leið er ekki fær. Íslandsbanki getur ekki útvegað sjer þá hlutafjáraukning svo bráðlega, sem nauðsyn er til.

Þá er næsta till. í málinu, sem kemur fram í Ed.frv. og hefir fylgi meiri hl. peningamálanefndarinnar, en hún er sú, að ríkissjóður leggi Íslandsbanka til hlutafje með því að taka lán erlendis, og þar sem þetta virðist eina færa leiðin, held jeg, að menn verði að fara hana. Það eru að vísu ákvæði í þessu frv., sem gera það mögulegt, ef næsta þing vill, að taka hluti í Íslandsbanka, en þó eru þetta miklu óákveðnari fyrirmæli heldur en í Ed.frv., og tilgangur þessa frv. virðist einmitt vera sá að komast hjá því, að hlutafje Íslandsbanka verði aukið.

Jeg lít því svo á þetta frv., að tilgangur þess sje sá að afstýra því, að ríkið láti hlutafje í Íslandsbanka. Hins vegar hefir þetta frv. ekkert ákvæði, eins og stj.frv., að leyfa bankanum að auka hlutafjeð, ef ríkið ekki kaupir hluti.

Annars er jeg á sama máli og hv. þm. Dala. (B. J.) um það, að ekkert þessara frv. hafi öll þau ákvæði að innihalda, sem þörf er á til styrktar Íslandsbanka. Hlutafjárkaup af hálfu ríkissjóðs hljóta að taka nokkurn tíma og myndu ekki komast í kring fyr en á hausti komandi. En nauðsynlegt er að greiða úr fjárhagsvandræðunum fyrir þann tíma, því að landsmenn þola ekki, að það dragist svo lengi. Það var rjettilega fram tekið hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að fyrst verður að greiða erlendu skuldimar. Þess vegna þarf viðbótarlánsheimild fyrir stjórnina í þá átt, sem farið er fram á í frv. hv. þm. Dala. (B. J.) og gert er ráð fyrir að nokkru leyti í frv. því, sem hjer er til umr.

Viðvíkjandi umr. þeim, sem fallið hafa hjer, ætla jeg ekki að henda á lofti nema lítið eitt. Þó vil jeg leiðrjetta eitt atriði, sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði og að líkindum hefir verið mismæli hans, að Íslandsbanki væri verslunar- og „spekúlations“-banki. — Slíkt hlýtur að vera sagt í ógáti, því vitanlega er bankinn verslunar- og útvegsbanki. (Gunn. S.: Er útvegurinn ekki „spekúlation“?). Útgerðin er framleiðslufyrirtæki og annar aðalatvinnuvegur landsmanna, en jeg mun ekki þurfa að skýra fyrir hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), hvað „spekulation“ er.

Nú liggja hjer fyrir 4 lagafrv. um þetta sama mál.

Viðvíkjandi þessari frv.mergð, er það að segja, að þau eru í mínum augum alt of mörg. Þau eru svo mörg, að það verður að fækka þeim nú, svo að hv. þm. geti komið sjer saman um, að eitthvert þeirra skuli ganga fram.

Jeg felst á það með hæstv. fjrh. (M. G.), að fyrir þingstörfin væri það heppilegast að taka Ed.frv. og breyta því þá, ef mönnum svo sýndist. Og mjer fyrir mitt leyti finst, að nauðsynlegt sje að breyta dálítið einstökum ákvæðum þess. Og ef það frv. gengur hjer fram með litlum breytingum, þá þyrfti að auki annaðhvort að samþ. frv. hv. þm. Dala. (B. J.), eða þá að taka efni þess frv. inn í Ed.frv., sem jeg þó tel vafasamt, að hægt sje að gera svo vel fari.

Þessi frv. eru nú hjer til 2. umr. í dag, og til þess að gera brtt. við þau, er þá ekki nema tíminn á milli 2. og 3. umr. Sýnist mjer því nauðsynlegt, að menn geti vitað eftir þessa umr., hvort frv. eigi að takast til meðferðar.

Þess vegna sýnast mjer nú aðeins tvær leiðir fyrir hendi.

Önnur er sú að fella annaðhvort frv. og þá sýnist mjer ekki vafamál, að það eigi að vera það frv., sem nú er til umr.

Hin er sú, að ef þetta frv. verður látið ganga fram, þá verður að láta Ed.-frv. biða, þar til útsjeð er um örlög hins frv. í hv. Ed., eins og hv. flm. (M. K.) líka benti á.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að hin mestu vandræði geti af því stafað, ef hv. deild vísar báðum þessum hliðstæðu frv. til 3. umr. Þá geta háttv. þm. ekkert um það vitað, að hvoru frv. þeir eigi að snúa sjer með brtt. sínar, og því alt málið í hinni mestu óreiðu.

Því er það, að jeg tek það ráð að greiða nú atkv. á móti frv. á þskj. 520 í trausti þess, að ef sú fækkun getur komist í kring nú, þá muni allir hv. þdm. hverfa að því ráði að taka Ed.-frv. til meðferðar og gera á því nauðsynlegar breytingar í sambandi við frv. hv. þm. Dala. (B. J.).