13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að segja það, að jeg er dálítið óþreyjufullur eftir því að sjá, hvernig menn skipa sjer um þetta mál og frv.

Að sjálfsögðu er það svo um þetta mál sem önnur, að á því eru tvær hliðar og ekki sama, hvorri hliðinni er haldið fram. Annars vegar eru hjer hagsmunir þjóðfjelagsins, en hins vegar hagsmunir Íslandsbanka. Blandast mjer ekki hugur um, að hjer eru skiftar skoðanir um það, að hvorri þessara hliða eigi að halla sjer. Geta margvísleg atvik til þess legið, að einn lítur fremur á aðra hlið en hina.

Jeg finn ástæðu til að vera þeim hv. þm. þakklátur, sem tekið hafa undir með því frv., sem nú liggur fyrir til umr., og vil jeg þar til nefna hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). En þessi þakklátssemi mín nær heldur ekki lengra, að því er snertir þessa umr. Margt hefir nú fram komið við umr., er gæti gefið tilefni til nokkurra breytinga á frv., en þó er jeg ekki í vafa um, að það besta og hollasta, sem hægt er að gera í þessu mikla vandamáli, er að samþ. frv. án allra efnisbreytinga.

Að því hefir verið mikið gert hjer við umræðurnar að bera saman þetta frv. og Ed.frv. Það frv. liggur að vísu ekki fyrir hjer nú, en úr því það hefir verið dregið inn í umræðurnar, þá er ekki gott fyrir mig að sneiða algerlega hjá því.

Þó jeg hafi nú raunar óbeinlínis tekið það fram, að jeg telji ekki Ed.frv. eins fullkomna lausn á þessu máli eins og þetta frv., þá er þó ekki með því sagt, að ekki sé margt brúklegt og vel hugsað í því frv., og því fjarri mjer að telja frv. óalandi, ef sæmilegar breytingar yrðu á því gerðar. Jeg veit, að ástæður voru knýjandi og erfiðar, þegar þetta frv. var fram borið í hv. Ed., og því hafa hv. þm. þar ekki sjeð sjer fært að ganga eins langt og þeir gjarna hefðu viljað. Má því vel segja, að það frv. sje eins konar málamiðlun.

Því hefir verið haldið hjer fram af hæstv. fjármálaráðherra, að hyggilegast væri að hverfa nú þegar að Ed.frv. með einhverjum smábreytingum. Á þetta get jeg ekki fallist, því ef það frv., sem nú liggur fyrir, er betri lausn á málinu og hyggilegri, — og eitthvað í þá átt hefir hæstv. ráðh. kannast við í mín eyru, — þá er ekki hyggilegt að hverfa að hinu frv., sem lakara er. Það mætti miklu fremur telja það neyðarkost að fella þetta frv. og taka Ed.frv., og fráleit er sú kenning, að hjer eigi að taka því lakara, af því það er auðsóttara. Skal jeg svo ekki að öðru leyti fara frekar út í orð hæstv. fjrh., en mjer kom það þó nokkuð á óvart, hvernig hann snerist við þessu máli.

Hv. 1. þm. Reykv. tók fremur vingjarnlega á frv. og hjet því að nokkru leyti fylgi sínu. Virtist mjer hann þó leggja allmikla áherslu á það, að í frv. væri ekki eins vel fyrir komið seðlaútgáfunni og æskilegt væri. Sagði hann best að slá úrlausn þess máls á frest, og er það samkvæmt því, sem hann hefir áður haldið fram. Jeg get nú raunar ekki skilið til fulls, hvers vegna hv. þm. vill fresta þessum ráðstöfunum. Hann sagði, að þingið væri ekki bært að setja lög um þessi efni. Og er það svo að skilja, að lögin nái ekki fullu gildi fyr en samþykki hlutaðeigenda Íslandsbanka kemur til. En þessi sama hindrun verður einnig næsta ár og ekki hægt eftir því að bíða, að hún falli burt. Auk þess er óvíst, að afhending seðlaútgáfurjettarins liggi þá á lausu.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lýsti afstöðu sinni til þessa máls svo, að hann væri algerlega á móti frv. þessu og óskaði að það yrði felt. Með þessu hefir hann átakanlegast allra þeirra, sem í þessu máli hafa talað, lýst fylgi sínu við Íslandsbanka.

Þessi sami hv. þm. hafði það að athuga við flutning seðlaútgáfunnar í hendur Landsbankans, að hann óttaðist, að sú fúlga ógulltrygðra seðla í Landsbankanum myndi spilla áliti okkar út á við. — Um þessa hættu mætti skýrskota til stjórnarfrv., þar stendur þetta ákvæði, og líklega ekki að óyfirveguðu máli. Og það er vist, að nú eru seðlar Landsbankans í langt um meira áliti erlendis, þótt engin sje gulltrygging þeirra, en hinir gulltrygðu seðlar Íslandsbanka. Ekki er þetta heldur afarmikið fje, því samkv. frv. er ekki um að ræða nema 21/4 miljón kr., er flytjist í hendur Landsbankans, auk þeirra 3/4 milj., sem bankinn nú hefir í umferð.

Þá þótti hv. 3. þm. Reykv. of mikið veltufje tekið í einu af Íslandsbanka, — taldi hann slíkan áhalla milli bankanna óhollan og varasaman Jeg get ekki skilið, ef trygg eru viðsikfti bankanna á annað borð, að þá komi það að neinni sök, þótt sá bankinn, sem áður var minni, eflist við seðlaflutninginn, enda vænta allar þess og hafa vænst, að seðlarnir flyttust frá Íslandsbanka til Landsbankans, eins og Ed.frv. líka gerir ráð fyrir; munum við og allir búast við því, að Landsbankinn fái þetta í hendur, en bara ögn seinna eftir hinu frumvarpinu.

Skal jeg svo ekki tefja umræður lengur, en vil láta það í ljós, að ef horfið verður frá þessu frv., þá vakir ekki annað fyrir mjer en að koma fram með mjög róttækar breytingar við Ed.frv. En til þess vona jeg að ekki þurfi að koma, því hjer er vissulega tækifæri til þess að skipa vel málinu, með því að samþykkja það frv., sem hjer liggur fyrir.