13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg talaði nokkuð alment um þetta mál fyrir stundu síðan og læt það nægja. En nú hafa nokkrir hv. þm. tekið til máls síðan, og lætur þá að líkindum, að ekki sje ástæðulaust að svara þeim nokkrum orðum.

En það vill nú svo vel til, að sumir þessara manna hafa verið frv. hlyntir, og þeim þarf jeg því ekki að svara. Það var einkum hv. 3. þm. Reykv., sem lýsti því yfir, að hann væri á móti frv., og skal jeg koma að ræðu hans seinna. Jeg ætla þá að víkja fáum orðum að ræðum hv. þm. í þeirri röð, sem þær hafa komið fram.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði á þann veg, að honum fyndist þetta frv. betra en hin frv., og þakka jeg honum fyrir það.

En hann lagði algerlega rangan skilning í ummæli mín um gang þessara mála hjer á þinginu. Komst hann svo að orði, að jeg hefði verið að gefa hv. Ed. „vonarbrjef“ um það; að þessi hv. deild mundi ekki taka hart á því, þótt Ed. legðist á móti frv. Þetta er algerður misskilningur. Jeg sagði, að hvernig sem hv. Ed. tæki í þetta mál, þá mundum við flm. þessa frv. haga meðferð málsins á þann hátt, að allar leiðir væru opnar til þess að breyta Ed.frv. í svipað horf og okkar frv. Færði jeg rök að því, að ekki þyrfti þingið að tefjast til muna, þó sú aðferð yrði höfð, sem jeg mintist á. Skal jeg víkja nánar að þessu síðar.

Hv. 1. þm. Reykv. tók fremur liðlega í málið, en hreyfði þó athugasemdum og var ekki í alla staði ánægður með frv. Aðalmótbára hans gegn frv. skildist mjer vera sú, að hann taldi það misráðið, að Landsbankinn fengi að gefa út síðustu seðlana fram yfir 8 miljónir. (Jak. M.: Þetta er tómur misskilningur.) Það er ekki misskilningur. Hv. þm. lagði einmitt mikið upp úr „seðlatoppinum“, og held jeg, að enginn, sem á hlýddi, hafi getað lagt annan skilning í orð hans. Verð jeg að taka þau hjer eins og þau voru hjer töluð, en ekki eins og hv. þm. nú vill hafa þau.

En jeg geri ráð fyrir því, að ef Íslandsbanki gefur út 5 milj. kr. í seðlum og Landsbankinn 3 miljónir, þá muni eigi þurfa meiri seðla og þessir „toppseðlar“ því ekki þurfa að valda miklum ágreiningi. Vegna verðfalls á mörgum vörum má og gera ráð fyrir því, að seðlaþörfin framvegis verði ekki eins mikil og að undanförnu, Það er og almenn skoðun hjer í þinginu og víðar, að ekki sje heppilegt að gefa út mjög mikið af seðlum. Og þar sem nú stjórnin hefir þetta á valdi sínu, þá býst jeg við, að ekki verði of mikið gefið út. Önnur ástæða hv. þm. var sú, að það væri í sjálfu sjer varhugavert að auka seðlaútgáfu Landsbankans, og vafasamt hvort seðlaútgáfurjetturinn ætti nokkurn tíma að hverfa til hans, því veltufje hans væri svo lítið. Skil jeg það svo, að þessi hv. þm. vilji, að Íslandsbanki hafi rjettinn áfram, af því hann hafi veltufeð. Jeg held nú, að þetta sje nokkuð fljótfærnisleg ástæða og lítils virði. Þá var enn eitt atriði, sem sami hv. þingm. mintist á, að það væri líklega heppilegra, að þessi tilvonandi veðbanki hefði seðlaútgáfurjettinn eingöngu. En jeg vil ekki ræða það mál nú, því jeg býst við, að þessi hugsjón eigi langt í land, og finn því ekki ástæðu til að svara þessum hv. þm. frekar.

Hæstv. fjrh. (M. G.) var öðruhvoru að drepa á, að það væri óheppilegt, að þetta frv. hefði fram komið, því að það mundi bara tefja tímann. En jeg hjelt, að jeg hefði svarað því áður, og mjer finst það alveg óverjandi í slíku máli að vera að tala um það, hvort þingið stendur einum degi lengur eða skemur. Hæstv. fjrh. gerði mikið úr því, að hv. Ed. hefði samþykt frv. með öllum atkvæðum, en það var aðeins við síðustu umræðu. En jeg veit ekki betur en að skoðanirnar hafi verið mjög skiftar fram að síðustu stundu, hvernig svo sem það atvikaðist, að svona giftusamlega tókst til. Það getur heldur engan veginn verið þess valdandi, að þessi hv. deild megi ekki víkja frá þeirri skoðun, því að hún hefir fullkominn rjett til að ræða málið eins ýtarlega og hv. Ed. Það er ekki sanngjarnt að krefjast þess, að við víkjum frá þessu ágreiningsmáli, eins og hann komst að orði.

Þá kem jeg að fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. til hæstv. fjrh., hvort hann hefði lýst yfir afstöðu stjórnarinnar í þessu máli, og hvort honum væri kunnugt um afstöðu Landsbankastjórnarinnar í málinu. Hæstv. fjrh. svaraði þessu á viðeigandi hátt, þó hann hefði getað farið nokkuð ákveðnari orðum um afstöðu stjórnar Landsbankans, því hann veit, hvort hún muni sætta sig við það. Ennfremur hefir verið minst á það, að ekki verði fullrætt um þetta fyr en vitneskja fáist um það, að hve miklu leyti stjórn Íslandsbanka sje þessu fylgjandi. Jeg legg nú ekki mikið upp úr slíku, en jeg tel þetta heppilegra, og hún ætti að vera svo viti borin að álíta þetta hyggilegt, því það mun ekki hafa áhrif á atkvæði mitt, og jeg geri ráð fyrir, að það muni heldur ekki hafa áhrif á atkv. margra þm., hvað stjórn Íslandsbanka álítur. Jeg álít, að með frv. okkar sje Íslandsbanka gerðir sæmilegir kostir, því ef lengra væri farið, þá gæti litið svo út eins og verið væri að verðlauna bankann fyrir það ástand, sem hann hefir skapað að nokkru leyti. Það ætti að vera öllum hv. þm. ljóst, að við eigum ekki að sækja ráð okkar til bankans.

Hv. þingm. lagði mikið upp úr því, að Ed.frv. hefði verið viðurkent hjer sem líklegasti og besti grundvöllurinn, er hjer væri um að ræða. Jeg skal játa það, að það er margt í því frv., sem er gott. En jeg býst við, að enginn, sem vill líta það með sanngirni, mótmæli því, að þetta sje heillavænlegasta skipulagið til frambúðar.

Hv. þm. gaf það í skyn, að það væri skylda deildarinnar að sýna samningalipurð á þann veg að viðurkenna, að eina bjargráðið út úr ógöngunum væri þegar í stað að leggja hlutafje í Íslandsbanka. Jeg verð að álita þetta mjög mikið efamál, og mjer er ómögulegt að sannfærast um, að það sje besta úrlausnin. Það er varhugavert að afráða nú þegar að kaupa hlutabrjef í bankanum fyrir miljónir króna, eða jafnvel fyrir hærri upphæð en hlutafje hans nemur nú. Þetta er varhugavert, og verður því að fara fram skoðun á hag bankans áður en ríkið leggur fje í hann. En það væri glapræði, ef þessi hlutakaup færu fram nú þegar.

Jeg vil taka þetta skýrt fram, því að þetta er meiningamunurinn.

Enn fremur gat sami hv. þm. (J. Þ.) þess, að það liti svo út sem við flm. værum staðráðnir í því að afstýra því, að ríkið keypti hluti í Íslandsbanka. Þetta er algerlega órökstudd fullyrðing, og er alls ekki hægt að draga það út úr frv. En hitt er annað mál, að við flm. álítum þetta misráðið, að gera það nú þegar, og jeg hygg, að það fyrirkomulag, sem frv. okkar gerir ráð fyrir, verði best.

Ennfremur gat hann þess, að hann vænti þess, að Ed.frv. gengi fram, og vildi ráða deildinni til að taka hreina afstöðu til þessa frv. Þetta er bein aðferð og virðingarverð, en hvort hún er eins heillavænleg, læt jeg ósagt. Að mínu áliti eru það ekki eingöngu vísdómsorð, sem frá þessum háttv. þm. koma, þótt hann hafi góða hæfileika á ýmsum sviðum. Jeg vildi aðeins taka það fram til árjettingar og eg vænti þess, að hv. 3. þm. Reyky. sje ekki svo miklu ráðandi hjer í deildinni, að hann geti ráðið því, að þetta frv. verði felt við þessa umr., því að það væri hið mesta glapræði.