13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (3307)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Magnús Jónsson:

Það gæti virst svo, að glundroðinn í bankamálunum færi æ vaxandi hjer á hinu háa Alþingi, ef dæma mætti eftir fjölda frv., sem snjóað hefir í seinni tíð, og hefir þó heyrst, að á fleirum sje von, hvort sem satt er eða ekki, og er vonandi skrök. En þó svona líti út í fljótu bragði, sýnist mjer þó, að nú sje einmitt að færast í ákveðnara mót vilji þingsins í þessu efni og dæmi jeg þar eftir því, hve mikið ættarmót er með þeim tveim bankafrv., sem hjer eru á dagskrá, frv. því, sem hv. Ed. hefir gengið frá, og svo því frv., sem hjer eru á dagskrá, frv. því, er höfuðstefnan í líka átt, þótt út af bregði í einstökum hlykkjum. Bæði gera ráð fyrir því, að ríkið verði að taka í taumana um getuleysi Íslandsbanka að hamla móti straumnum. Bæði vilja láta móti koma ívilnun af hendi þessa banka um hindrunarrjett hans í útgáfu seðla. Bæði snúast þau um þessa tvo tappa, og sýnir það, að dýpra og dýpra hjólfar er að myndast, sem allir vagnar renna eftir meira og minna. Hv. frsm. (M. K.) gat þess líka, að frv. þeirra vildi samrýma þau frv., sem áður hefðu komið fram, og játaði með því samrýmanleik þeirra.

En jeg get ekki fallist á það, að þetta hafi tekist giftusamlega að öllu leyti með þessu frv., heldur finst mjer það stefna eins einhliða í aðra áttina eins og hægt er, og það er sú áttin, sem að Landsbankanum veit, svo að ef semja ætti frv., sem drægi taum þeirrar stofnunar gegn Íslandsbanka, þá hygg jeg, að fara mundi í líka átt og þetta frv.

Nú veit jeg vel, að það er og á að vera vinsælt, að svo stefni. Landsbankinn verður að vera okkur hjartfólgnari en hinn útlendi hlutabanki. En þó má ekki fara hjer lengra en góðu hófi gegnir, og rekist á hagur Landsbankans og þjóðarinnar, þá er ekki vafi á hvort ráða skal. Bankinn er til vegna þjóðarinnar, en ekki þjóðin vegna bankans.

Það er heldur ekki nema sjálfsagt, að forstjórar Landsbankans sjeu ráðunautar um slík mál sem þessi og þeirra orð sjeu meira metin en flestra eða allra annara. En þó verður einnig að líta hjer á afstöðu þeirra í þessu máli, og þá er því ekki að neita, enda hefir heyrst, jafnvel hjer í þessari hv. deild, í umr. um skyld mál, að samkomulag og samvinna bankanna tveggja hafi ekki ávalt verið hin ákjósanlegasta. Og þeir gætu því ef til vill skoðast að nokkru leyti sem partar í málinu. Þeir eru líka umboðsmenn bankans, en við umboðsmenn þjóðarinnar.

Það hefir nú heyrst, að Landsbankastjórnin sje ánægð með þetta frv. En aftur á móti hefir ekki heyrst, að forstjórar Íslandsbanka hafi sagt sína skoðun á þessu. Jeg er nú kann ske ekki mjög spámannlega vaxinn í þessu efni, en þó ætla jeg að leyfa mjer að efast um, að Íslandsbanki geti sætt sig við þetta frv. — Já, það mun óhætt að segja, að Íslandsbanki hljóti að vera fullkomlega andvígur því, t. d. ákvæðum 1. gr. Ef bankinn gat ekki sætt sig við bráðabirgðaskipulag seðlaútgáfunnar, þá getur hann ekki sætt sig við slíkt skipulag, sem hjer er ákveðið

En þarf nú nokkuð að skifta sjer af vilja Íslandsbanka?

Við skulum nú ekki í þessu efni tala neitt um hag bankans sjálfs. En þá er á það að líta, hvaða afleiðingar gætu orðið fyrir þjóðina sjálfa af fullkominni óánægju bankans með ákvæði frv.

Eins og kunnugt er, er hjer um einskonar skilyrðisbundin lög að ræða. Alþingi er hjer í raun og sannleika ekki nema annar aðili um samning, sem ekki tekst, nema hinn aðilinn fallist á. Íslandsbanki getur því, samkvæmt þessum lögum sjálfum, felt þau úr gildi á hluthafafundi, og hann gerir það, ef honum þykir kosti sínum þrengt of mjög. Ef lögin hafa í sjer slík óánægjuatriði, þá hafa þau í sjer banatilræði við sjálf sig. En hvernig fer þá? Hver verður afleiðing þess, ef hluthafafundur Íslandsbanka fellir lögin úr gildi með því að neita um skilyrði 16. gr.?

Það má auðvitað svara því, að stjórnin geti þá gefið út bráðabirgðalög um framlenging seðlaútgáfurjettarins. En til hvers er þá alt okkar skraf hér orðið? því að þá er fallið niður ekki aðeins skipulag seðlanna, heldur og heimildin um lán til bankans eða hlutakaup ríkisins. Hafi stjórnin þá fengið lántökuheimild, eins og hjer var til umr. í dag, og ráðstöfunarheimild til bankanna, þá kann ske gæfi þetta dankast, en vandræðalegt er það. — En svo er annað. Setjum nú svo, að Íslandsbanki óskaði alls ekki eftir slíku, en tæki þann kost að hætta starfsemi sinni. Þá myndi, hygg jeg, koma ónotalega fram, hve þessi stofnun, sem ýmsum er ekki neitt sjerlega hjartfólgin, er margtvinnuð saman við hag þjóðarinnar, svo að hvorki við nje nokkur annar getur þar við ráðið, eða slitið það lífssamband, sem er milli bankans og atvinnuvega landsins og fjármála allra.

Háttv. flm. (M. K.) talaði um það tækifæri, sem nú væri og nota ætti, en hvernig færi það tækifæri, ef Íslandsbanki væri gerður svo óánægður með það skipulag, að hann hafnaði að ganga að því? Þá tapaðist þetta tvent:

1. Tækifærið að ráða fram úr peningakreppunni og

2. Tækifærið að ná íslenskum tökum á bankanum.

Jeg hygg, að hæstv. stjórn mundi ekki standa fallega að vígi undir slíkum kringumstæðum. Mjer þykir því ekki kynlegt, þótt hæstv. fjármálaráðherra tæki nokkuð dræmt í þetta frv. Hann hlýtur að hafa sjeð, í hverskonar klípu framkvæmd slíkra laga gæti sett stjórnina. Mjer finst sannast að segja stórfurðulegt, að þetta frv. skuli vera upprunnið í herbúðum stjórnarinnar. Væri miklu líkara því, að reynt væri að fleyta því gegnum þingið í þeim tilgangi að koma stjórninni í þær kringumstæður, er væru nokkurn veginn vissar um að verða henni til falls síðar. Jeg hygg nú, að mjer verði tæplega brugðið um óhæfilegt fylgi við núverandi stjórn, og það gæti náttúrlega verið freisting að ýta heldur undir það en hitt fyrir andstæðinga stjórnarinnar. En hvað mjer viðvíkur, þá skal jeg fúslega kannast við það, að mjer þykir sá sigur of dýrkeyptur, þegar hann snýst upp í tjón fyrir þjóðina, eins og jeg efast ekki um, að af því mundi hlotnast, ef í harðbakka slæi í þessu efni.

Þegar jeg ber saman þessi tvö bankafrumvörp, sem áður hafa nefnd verið, þá hika jeg ekki við að taka frv. háttv. Ed. fram yfir, og yfirleitt get jeg felt mig við það skipulag í flestum greinum, sem þar er farið fram á. Skal jeg nefna að eins tvö atriði, sem jeg finn að ber hjer á milli, og gerir það að verkum, að jeg hallast meira að Ed. frv.

Annað er um seðlaútgáfuna. Samkvæmt frv. háttv. Ed. er seðlaútgáfurjettinum ekki ráðstafað til ákveðins banka. Tækifærið er þar aðeins tekið til þess að fá Íslandsbanka til að ganga inn á nýtt samkomulag um seðlaútgáfu hans meðan leyfistími hans stendur og láta af hendi heimildarrjett sinn smátt og smátt. En á hinn bóginn er látið með öllu ósagt að svo komnu, hvernig seðlaútgáfunni verði ráðstafað jafnóðum og hún losnar. Og það tel jeg alveg hárrjett. Á hinn bóginn er í hinu frv. slegið föstu, að Landsbankinn skuli verða seðlabankinn í framtíðinni. Persónulega er jeg á móti því, því til þess þyrfti að breyta skipulagi hans allmjög. Hann yrði þá að hætta að mestu að vera viðskiftabanki og sparisjóður, ef trygt á að vera. En það tel jeg óheppilegt, að ekki sje nema ein stofnun í landinu, sem þau störf hafi með höndum. Lægi því nær að fela seðlaútgáfurjettinn sjerstakri stofnun. En alt þetta þarf að íhuga í næði, og meðan á ekki að ráðstafa seðlaútgáfunni, og ekki nema tvíverknaður að vera nú að ákveða, að seðlaútgáfan skuli komast í hendur Landsbankans og breyta því svo ef til vill bráðlega aftur.

Hitt atriðið, sem á milli ber, er það, sem jeg hefi nú áður talað um, að sennilegast er, að þetta frv. beri í sjer sitt eigið banamein með þeim hörðu skilyrðum, sem hinum aðiljanum, Íslandsbanka, eru sett, bæði í 1. gr. og viðar. Þessu er ekki til að dreifa í frv. háttv. Ed., ef sanngirni má vænta frá bankans hálfu. Þar sýnist fulltryggilega frá öllu gengið frá landsins hönd, en á hinn bóginn ekkert, sem á að þurfa að vera óaðgengilegt fyrir Íslandsbanka, og því má sennilega vænta þess, að með þessu fengist sú lausn á málinu, sem stofnað er í voða með hinu.

Ýmislegt fleira gæti jeg nefnt þessu máli mínu til staðfestingar, en læt það kyrt liggja til þess að standa við þau orð mín, að eyða ekki úr hófi fram tíma þingsins. En jeg mun greiða atkv. móti þessu frv. til 3. umr.