13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (3308)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hefi ekki miklu við það að bæta, sem hv. meðflm. mínir hafa tekið fram. Þeir hafa einnig haft tækifæri til þess að svara flestum þeim aðfinslum, sem fram hafa komið í garð frv.

Þó vil jeg benda á það, að mjer þykja andmælendur þessa frv. gera of mikið úr mismun 9. gr. þessa frv. og 5. gr. Ed.frv. Þeir líta svo á, að nauðsyn beri til að ákveða nú þegar um hlutafjárkaup í Íslandsbanka. En við aftur á móti teljum ekki bráða nauðsyn fyrir bankann að fá ákveðin svör um hlutafjárkaup straks. Allur er varinn góður og því rjett að bíða með ákvörðun um það, þar til stjórnin hefir fengið það álit nefndarinnar, sem rannsókn á bankanum leiðir í ljós. Og þó þessi hlutafjárkaup verði ákveðin nú, þá geta þau þó ekki komið til framkvæmda fyr en rannsókn bankans er lokið, sem aldrei getur orðið löngu fyrir næsta þing.

Fyrst er þá það, að þessi rannsókn yrði ekki hafin fyr en hluthafafundir Íslandsbanka eru búnir að samþ. það. Þessi lög áskilja og, að það getur ekki orðið fyr en seint í ágústmánuði. Svo mundi rannsóknin sjálf standa yfir 3–4 mánuði og er þó komið að áramótum. Loks þyrfti svo stjórnin að átta sig á skjölunum, og mundi þá langt liðið að þingi, er hlutafjárkaupin gætu farið fram.

Mjer sýnist því langforsvaranlegast í svona stóru máli eins og þessu, að þinginu sjálfu gefist kostur á að athuga málið, eftir að það fyrir rannsókn bankans hefir fengið nauðsynleg skjöl í hendur.

Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vantreysti stjórninni í þessu máli, en mjer finst rjettast, að Alþingi hafi síðasta orðið um þessi hlutafjárkaup.

Þá hafa ýmsir hv. þdm. haft ýmislegt að athuga við ákvæði frv. okkar um seðlaútgáfurjettinn. Skal jeg játa, að í því efni er frv. okkar allfrábrugðið Ed.-frv. En það víkur lítið frá stj.frv. í þessu atriði, og jeg veit ekki betur en einmitt það atriði stj.frv. hafi verið samþ. af forráðamönnum Íslandsbanka, sem sje það, að bankinn afhendi nú þegar 21/4 milj. kr. í seðlum til ríkissjóðs.

Þá hefir verið nokkuð deilt um ákvæðið í frv. okkar um toppseðlana, eða að Landsbankinn skuli gefa út þá seðla, sem þarf umfram 8 miljónir.

Jeg er nú þeirrar skoðunar, að mikil seðlaútgáfa leiði ýmislegt misjafnt af sjer. Fólki finst það efnaðra en áður, þegar það hefir seðlana á milli handanna, og því er meira eytt en skyldi. Held jeg því langt um hollara fyrir þjóðina að hafa gjaldeyrinn allmikið takmarkaðan. Einnig má geta þess, að nú eru vörur að falla í verði og því minni þörf fyrir mikinn gjaldeyri. Jeg held því, að varla geti til þess komið, að við þurfum meiri gjaldeyri en það, að gefnar verði út 7–8 miljónir í seðlum alls.

Jeg geri því sáralítið úr þessum toppseðlum og held, að rjetturinn til þeirra muni verða hvorugum bankanum til búbóta.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gat um, að Íslandsbanki mundi eiga erfitt með að skila nú 21/4 miljón kr. Til þess er því að svara, að bankinn hefir áður undirgengist þetta, og ef honum veitir það örðugt nú, þá gæti ríkissjóður lánað honum eitthvað í bili gegn tryggingu.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að þetta frv. virtist sveigja til hagsmuna Landsbankans, en til óhags Íslandsbanka.

Það má nú vera, að þetta frv. sje ekki eins ákjósanlegt fyrir Íslandsbanka eins og Ed.frv. En þó get jeg bent hv. þm. (M. J.) á eitt ákvæði í þessu frv., sem ekki er í Ed.frv., en það er um lán til handa Íslandsbanka nú þegar frá ríkisins hálfu, og held jeg, að það væri nokkurs virði fyrir bankann.

Hjá okkur er engin tilhneiging til þess að ráðast á hagsmuni Íslandsbanka eða láta frv. verða óaðgengilegt fyrir hann. Okkur er það kunnugt, ekki síður en öðrum að bankann þarf að styrkja, og það álítum við einmitt að þetta frv. geri, enda hefir enginn andmælt því. Jeg skal ekki bera brigður á það, að hv. þm. (M. J.) sje „fylgjandi þjóðinni“, eins og hann komst að orði. Jeg veit af fyrri viðkynningu, að hann vill líta rjett á málin. En hann má þá heldur ekki ætla öðrum aðrar hvatir. (M. J.: Það hefi jeg heldur ekki gert).

Ýmsir hv. þdm. hafa talað um það, að ekki væri rjett að afhenda Landsbankanum seðlaútgáfuna nú, þar sem ekki væri á honum það skipulag, að hann gæti verið seðlabanki. Jeg viðurkenni það, að nú er ekki slíkt skipulag á bankanum. En hins vegar er löggjafarvaldinu á hverjum tíma sem er innan handar að breyta því skipulagi. En á þessu þingi er það ekki hægt, og því verður það að bíða. En fyrirkomulag Íslandsbanka er síst betra til þess að hafa seðlaútgáfu. Annars má benda á það, að fyrirkomulagið, sem verið hefir á Íslandsbanka sem seðlabanka, á ekki minstu sök á því, hversu erfið afkoman er nú hjá þessum banka.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) beindi þeirri spurningu til flm., hvort samþ. Íslandsbanka hefði verið leitað um þetta frv. Jeg get svarað þessu fyrir nefndarmennina, að svo er ekki. En við álítum, eftir að hafa farið yfir stj.frv. og athugað þá smáagnúa, sem á því voru að áliti stjórnar bankans eða bankastjóranna, að bankastjórnin mundi ekki vera þessu frv. mótfallin, samanborið við það, sem hún hefir áður látið í ljós. Jeg get ekki trúað því, að hv. deild geti ekkert samþ. í þessu máli nema það, sem víst er um, að bankastjórn Íslandsbanka vilji ganga að fyrirfram eða mæla með til aðalfundar. Hins vegar höfum við flm. alls ekki þvertekið fyrir það, að við gætum ekki hugsað til einhverra breytinga, þó að við mundum ekki ganga inn á efnisbreytingar í aðalatriðum.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að varhugavert væri að gefa út meira af ógulltrygðum seðlum, einkum þegar við þyrftum að taka lán erlendis. Jeg get viðurkent þetta að nokkru leyti. Vissulega er það varlegra að hafa sem mesta gulltryggingu, þó hins vegar sje hættulaust að slaka dálítið á henni, þegar vissa er fyrir því, að draga megi seðlana inn með stuttum fyrirvara.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) gat þess, að athuga bæri, hvort ekki væri tiltækilegt, að veðbankinn hefði seðlaútgáfuna. Auðvitað má athuga þetta. En enginn efi er þó á því, að þó veðbankinn gefi út seðlana, þarf líka gulltryggingu. Þó heyrst hafi, að jarðeignir hafi á stríðsárunum sumstaðar verið hugsaðar sem seðlatryggingar að einhverju leyti, geta þær ekki verið það einvörðungu til frambúðar. Það verður altaf nauðsynlegt að hafa gullið, einkum í „krísum“; það er fljóttekin trygging, en seinlegt oft að „realisera“ fasteignir. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni.