12.03.1921
Efri deild: 21. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

156. mál, erfingjarenta

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Frv. samhljóða þessu frv. var samþ. hjer í þessari háttv. deild og afgreitt til Nd. á síðasta þingi, en dagaði þar uppi, af því að þá var komið að þinglokum.

Álit landbúnaðarnefndar er á þskj. 117. En með því, að ástæður flm. frv. (B. K.) eru allítarlegar, þótti ekki þörf að taka þar annað fram en að nefndin mælir með, að frv. nái fram að ganga með litlum breytingum.

Aðalbreyting nefndarinnar er sú, að takmarkið til að geta komið til greina við úthlutun erfingjarentu er hækkað upp í 8 ár, í staðinn fyrir 5 ár, eins og stendur í frv., og að börn, sem vinna þetta tiltekna árabil hjá foreldrum sínum, hafi rjett til verðlauna á sama hátt.

Jeg hefi heyrt af háttv. deildarmönnum, að nefndin hafi spilt fyrir frv. með því að gera ráð fyrir óhæfilega háum aldri. Og þeim þykir aldursmarkið of hátt. En á þessu hefi jeg aðra skoðun. Ef aldursmarkið er 25 ár, þá sækir óhæfilega mikill fjöldi, en það eru aðeins tíu, sem geta hlotið þetta, og álít jeg því þess vegna, að engu sje spilt, þó aldursmarkið sje flutt þetta upp. Nú er sjáanlegt, að eftir því, sem fleiri geta sótt um þessi verðlaun, hefir hver einstakur umsækjandi minni von um að hljóta þau, því að þá fer úthlutunin fram með hlutkesti, svo þeir verðugustu geta vel orðið á hakanum fyrir þeim, er minna hafa til unnið. Þó að kunni að rísa ágreiningur um þetta atriði, þá verða þó, vona jeg, allir samþykkir, að börn, sem vinna hjá foreldrum sínum, fái sama rjett og önnur hjú. Því það kemur oft fyrir, að börn vinna um margra ára skeið hjá fátækum foreldrum.

Brtt. við 4. gr. frv. er, að í stað „landssjóðs“ komi ríkissjóðs.