29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

85. mál, eftirlit með skipum og bátum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Máli þessu er þann veg farið, að stjórnin hafði það til meðferðar og skipaði nefnd til að athuga það og koma fram með tillögur. Frá þessari nefnd barst stjórninni síðan frv. En það, sem dró úr stjórninni að leggja frv. fyrir þingið, var kostnaðaraukinn, sem frv. hafði í för með sjer, en ekki hitt, að stjórnin teldi málið óþarft. Málið er þegar undirbúið, en spurningin er aðeins nú: Á að halda áfram í gamla horfinu enn um hríð, eða stofna þegar nýtt embætti, með þeim kostnaði, sem því fylgir? Stjórnin tók nú fyrri kostinn; hún vildi ekki auka útgjöld ríkissjóðs að þessu sinni. Það kom og fram í umræðunum hjer í háttv. deild áðan, að það væri viðurhlutamikið nú að fjölga embættum.

Ef þál. verður samþykt, sem jeg geri ráð fyrir, þá skilst mjer, að í því liggi það, að deildin ætlist til, að stjórnin leggi sem fyrst frv. fyrir þingið, þar sem ákveðið sje að fela þessi mál sjerstakri skrifstofu. Að minni hyggju er það að minsta kosti hvatning til stjórnarinnar að gera það. Og stjórnin mundi þá að líkindum verða við þeirri áskorun. Málið er líka þegar allvel undirbúið. Mjer finst naumast þýða eða vera hægt að gefa út nýja reglugjörð um þessi efni fyr en afráðið er, hvort stofna skuli sjerstakt embætti eða ekki. Annars hefi jeg ekkert á móti þál. Það er ekki nema skylt, að stjórnin haldi málinu vakandi.