16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

89. mál, rannsókn á höfninni í Súgandafirði

Flm. (Ólafur Proppé):

Herra forseti! Sennilega er það næsta mál á dagskrá, sem hefir haft slíkt aðdráttarafl hjer í dag, sem raun er á orðin, og jeg býst við, að allur sá fjöldi áheyrenda, sem kominn er, muni kjósa það, að jeg verði stuttorður. Og það get jeg því fremur gert, sem hæstv. forseti hefir verið svo framsýnn að ætla málinu tvær umr.

Ef notið hefði við þess manns, sem um langan tíma hafði slíkar rannsóknir með höndum fyrir landssjóðs hönd, er hjer ræðir um, þá væri þessu verki sennilega nú lokið. En því miður naut þessa manns svo stutt við, að úr því varð eigi, en hins vegar er Súgfirðingum þetta hið mesta áhugamál, og það er þá einnig að tilhlutun hreppsnefndar og fyrir ítrekaðar áskoranir frá hjeraðsfundum, að jeg flyt þetta mál nú.

Slík nauðsynjamál sem þessi eru vön að mæta hjer góðum undirtektum, og ætti því eigi að þurfa miklar málalengingar.

Sjálft sjávarþorpið, Súgandafjörður, er mjög mannmargt; búa þar á fimta hundrað manns. Auk þess er þar mjög mikil útgerð, um 20 mótorbátar og fjöldi smábáta, og mun útflutningur þaðan vera um 4 þúsund skippund fiskjar árlega. Það er því ekki nema von, að þorpsbúar æski rannsóknar á hafnarstæðinu, og full ástæða til að sinna málaleitun þeirra, því fremur sem í henni birtist ákveðinn framfarahugur. En skipalega þar er svo lítil og ónóg, að stærri mótorbátaútgerð fær alls ekki þrifist þar, og er það því bagalegra, þar sem Súgandafjörður er einhver álitlegasti fjörðurinn á Vestfjörðum hvað fiskisæld snertir.

Hvað kostnaði við þetta viðvíkur, þá mun hann ekki verða æðimikill. Jeg talaði við hæstv. forsætisráðherra í gær, og hann áleit, að vitamálastjóri mundi geta framkvæmt rannsóknina um leið og hann færi eftirlitsferðir þangað vestur.

Jeg skal svo ekki tefja lengur fyrir því, að tjaldið verði dregið upp fyrir þeim sjónleik, að jeg ekki segi „tragikomedie“, sem hjer á að fara fram nú á eftir og áheyrendur með óþreyju bíða eftir.