15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

103. mál, mat á aðfluttum kornvörum

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Aðeins örfá orð. Það er auðvitað rjett, sem drepið hefir verið hjer á, að nokkur kostnaður gæti orðið samfara þessu eftirliti. En það er hins vegar kostnaður, sem ekki er horfandi í, þar sem heilsa og líf manna getur verið annars vegar.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) er jeg þakklátur fyrir undirtektir hans, þótt jeg sje hins vegar ekki þeirrar skoðunar, að misbrestur gæti ekki átt sjer stað í þessu efni, eins þó að verslunin væri í höndum landsins sjálfs. Enda hefir það komið fyrir hjá landsversluninni, að kornvörur hafi verið skemdar, þó að verslunarstjórninni hafi þar ekki verið um neitt að kenna. Auðvitað væri það mesta tryggingin í þessu efni, eins og hv. þm. (J. B.) talaði um, að hægt væri að hafa eftirlit með vörunni, þegar henni er skipað út erlendis, en erfitt mundi það vera fyrir okkur. Hins vegar vil jeg benda á það, að þótt ekki færi fram lögskipað mat altaf, mætti hafa eftirlit t. d. lögreglustjóra, sem gæti orðið nokkuð til bóta.

Annars kom jeg ekki sjálfur með þetta í frumvarpsformi nú, af þeirri einföldu ástæðu, að jeg áleit mig bresta kunnáttu til þess að búa það nógu vel út, en málið hins vegar nauðsynjamál. Þess vegna vildi jeg fela það stjórninni, þar sem hún á færari mönnum á að skipa til aðstoðar og betri aðstöðu til að ganga vel frá málinu.