03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

107. mál, heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík

Þorsteinn Jónsson:

Það er ekkert, sem jeg þarf að svara hv. þm. Dala. (B. J.), því að jeg er honum algerlega sammála um það, sem hann vildi láta kenna við kennaraskólann. Reyndar get jeg nú tekið það fram, að sumt af því, sem hann taldi upp, er þegar kent við skólann, t. d. eins og uppeldisfræði o. fl. (B. J.: Það er víst kákað í því). Það hefir verið kastað höndum til þessa skóla frá upphafi, nema hann hefir verið svo heppinn að fá góða kennara. Húsið er óvandað, bygt í grjótholti, og því enginn blettur þar sem nemendur geta verið að leikjum í frímínútum sínum. Nemendum er ætlaður of stuttur tími til náms. Jeg hefi oft hugsað um, að heppilegast mundi vera að heimta gagnfræðapróf til inntöku, en hafa hann þriggja ára skóla sem nú.

Jeg ætla ekki að fara að halda langa ræðu um nauðsyn heimavista, en það mun vera sanni næst, að þær eru nauðsynlegar fyrir báða skólana, mentaskólann og kennaraskólann, og munu hafa góð áhrif, en vitanlega verður að vanda til þeirra, sjerstaklega fyrir unglinga í 1. og 2. bekk mentaskólans, enda mun það vera tilætlunin að gera þær góðar.

En það var ein ástæða, sem jeg gleymdi að taka fram áðan, að meiri þörf væri á heimavistum fyrir kennaraskólann en mentaskólann, og hún er sú, að það eru vanalega fátækari piltar, sem sækja kennaraskólann, og heimavistirnar ættu því að gera þeim ljettara fyrir og gera þeim ódýrari vistina hjer heldur en að þurfa að búa úti í bæ.