03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

107. mál, heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Það er aðeins stutt athugasemd út af ummælum hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), að stjórnin sje ekki skyldug til að verða við þeim þingsályktunartillögum, sem samþyktar eru. Þetta gat jeg ekki látið fram hjá mjer fara ómótmælt. Jeg álít stjórnina skylda til, ef hún vill ekki verða við þeim áskorunum, sem hún fær frá Alþingi og samþyktar hafa verið þar, að segja til í tíma og segja af sjer, ef hún, einhverra hluta vegna, ekki sjer sjer fært að verða við þeim. Hitt er annað mál, að stjórnin er ekki skyld til að gera eða láta gera báðar áætlanirnar á sama tíma, þótt báðar hafi verið samþyktar á þingi.