18.04.1921
Efri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

106. mál, elli og líftryggingar o. fl.

Flm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg hefi ekki miklu við að bæta greinargerð þá, sem fylgir þessari þingsályktunartillögu. Jeg bjóst við, að þessu lík till. mundi koma fram í hv. Nd., en þar sem mjer þótti það dragast, þá tók jeg það ráð að flytja þessa till.

Nokkur atriði vildi jeg þó taka frekar fram en í greinargerðinni, einkum til áherslu.

Aðaltilgangur minn með till. er sá, að fá að vita, hvað gert hefir verið í þessu máli á síðustu árum og hvar því nú er komið.

Eftir síðustu aldamót virðist hafa tekið að vakna talsverður áhugi á ýmsum innlendum tryggingamálum. Aukinn útvegur, dýr skip, meiri byggingar og ýmsar aðrar framfarir gerðu mönnum ljóst, hvað í húfi væri, ef slys bæri að höndum og alt væri óvátrygt. Hin tíðu slys af ýmsu tægi voru líka nóg til þess að halda áhuganum vakandi. Svo var og um hinar tíðu druknanir á íslenskum skipum á hverju ári. Menn sáu, að sjálfsagt var að tryggja fyrir þessum áföllum, og vegna þess að menn sáu strax, að hjer myndi bæði stórfje fara út úr landinu til iðgjalda og að hollast myndi að hafa hjer hönd í bagga með sjálfur, þá kom upp krafan um það, að þessar tryggingar væru innlendar. Og nú hefir smátt og smátt, með aðstoð þings og stjórnar, þessum málum verið komið í það horf, sem nú eru þau í og viðunandi má telja í bili.

En tryggingar á heilsu manna, vinnuþoli og hafi hafa átt erfitt uppdráttar, og er þó einnig hjer um verðmæti að ræða, sem skyndilega getur tapast og áreiðanlega tapast þjóðfjelaginu við heilsuleysi, elli og dauða einstaklingsins.

Jeg hefi minst áður á slysatrygging sjómanna, sem telja má í sæmilegu horfi nú, og jeg skal minnast á ellistyrktarsjóðinn, sem er alveg ófullnægjandi og verður um marga tugi ára, með því fyrirkomulagi, sem á honum er.

Embættismenn þjóðarinnar skulu nú einnig tryggja elli sína og kvenna sinna.

Þetta hefir nú þegar verið gert, og er spor í rjetta átt, en samt er enn mikið eftir ógert.

Hve margir eru þeir, sem lenda á sveitinni með alt sitt, ef þeir verða sjúkir stuttan tíma? Hve margir eru þeir, sem í elli sinni lenda á sveitinni, og hve margir skilja börn og konu eftir á vonarvöl, þegar þeir deyja? Margir þeirra manna hafa ef til vill eytt sínum síðasta skilding, meðan þeir voru heilir heilsu og vinnufærir, og áttu svo ekki neitt eftir til „vondu áranna“.

Nei, almennar tryggingar fyrir þessu, helst öllu, verðum við að fá sem allra fyrst.

Eins og greinargerðin ber með sjer, hefir dr. Ólafur Daníelsson þegar fundið með reikningum sínum fastan grundvöll til þess að byggja á í þessu efni, að því er snertir almennar líftryggingar, lífrentu- og ellitryggingar.

Að svo miklu leyti sem jeg ber skyn á þessa hluti, þá virðist mjer ellitryggingarlaun líklegust og einföldust til framkvæmda í náinni tíð, og alveg óforsvaranlegt að slá þeim á frest til lengdar. Þar er aðstaðan ágæt, lítill stofnkostnaður og lág iðgjöld.

Í sambandi við þetta og eins almennar líftryggingar, sem líklega yrðu eitthvað dýrari hjer á landi en annarsstaðar, skal jeg benda á, að á fyrstu læknisárum mínum var bæði lítið um líftryggingar, og þær fáu, sem voru, mjög lágar, upphæðin oftast 1–2 þúsund krónur. Síðustu árin hefir aftur tryggingum bæði fjölgað að mun í mínu læknishjeraði og upphæðirnar verið hærri, oft 4–10 þúsund krónur, og eru þó iðgjöld af þeim upphæðum alls ekki lítil fyrir verkamenn og bændur, eins og þá, sem jeg þekki best til. þetta sýnir, að þorra manna er að verða ljós þýðing líftrygginganna og ágæti, og hins vegar horfa þeir ekki svo mjög í iðgjaldskostnaðinn.

Stjórn og þingi er því óhætt að þessu leyti að ganga röggsamlega að þessu verki og undirbúa löggjöf um þessi efni.

Eins og nú einstaklingarnir að sínu leyti áreiðanlega hafa sjeð haginn af tryggingunum, eins ætti stjórn og þingi að skiljast, að þetta er stórt fjárhagsmál fyrir landið í heild sinni, sem jeg líka hefi drepið á í greinargerðinni. Þar hefi jeg bent á, að væri þessu máli hrundið í viðunanlegt horf, myndi á fáum árum safnast fyrir í landinu fleiri miljónir króna, sem ávaxta þyrfti, og gæti þar með orðið til þess að hrinda áfram ýmsum framfarafyrirtækjum til lands og sjávar, meðal annars í iðnaði.

Svo að jeg nefni að eins eitt dæmi þessu til sönnunar, skal jeg minnast á ríkisveðbankann. Honum hefir helst verið fundið það til foráttu á þessu þingi, að hann myndi ekkert fje hafa til útlána, þar sem ekkert fje væri til þess að kaupa með verðbrjef hans.

Þarna yrði fengið smám saman nægilegt fje, sem sjálfsagt væri líka að nota í þessu skyni, eins og gert er alstaðar erlendis; þar eru lífsábyrgðarstofnanir einn helsti kaupandi slíkra verðbrjefa, og hlýtur líka að vera það, samkvæmt eðli sínu.

Það mætti hugsa sjer, að þetta mikla fje gæti orðið landinu tvíeggjað sverð, einkum eftir þeirri reynslu, sem við höfum fengið af meðferð fjár í landinu síðustu árin. En jeg er ekki svo mjög hræddur við þetta, bæði af því að þjóðin hefir rekið sig alvarlega á nú og gerir líklega betur, og svo kemur þetta fje smátt og smátt á mörgum árum, eins og hlaðið sje steini við stein í vegg, en ekki alt í einu, eins og gróði sá og „spekulationsfje, sem hefir blindað svo augu þjóðarinnar nú.

Jeg skal svo vera stuttorður um þann kostnað, sem þessi þingsályktunartillaga myndi hafa í för með sjer. Jeg get ekki annað sjeð en að hann sje svo lítill, samanborið við það, sem í húfi er.

Það herrans ár 1915 varð það þingsályktun brunamálanefndar að falli í Nd., að lagt var til að heimila stjórninni 5000 krónur í þessu skyni.

Jeg býst ekki við, að þessi kostnaður yrði nú nærri svo mikill, úr því málið er svo vel undirbúið nú þegar, aðeins nokkur atriði, sem frekar þarf að athuga, svo að jeg vona, að þetta verði ekki tillögunni að falli nú, því það væri sannarlega að kasta krónunni og spara eyrinn, eins og svo oft er talað um á þingi hjer.

Skal jeg svo ekki eyða fleiri orðum að þessu, en vona, að till. verði samþ.